4. dagur 6. flokkur
Í morgun vöknuðu allar stúlkurnar á hefðbundnum tíma kl. 09:00 og komu í morgunmat kl. 09:30. Þær gátu valið um allt þetta venjulega en auk þess var boðið upp á Cocoa Puffs til að halda upp á það að nú eru allar stúlkurnar í flokknum orðnar alvöru hlíðarmeyjar eftir að hafa gist þrjár nætur í röð í Vindáshlíð.
Eftir morgunmat var fánahylling og Biblíulestur þar sem rætt var um góða hirðinn.
Brennó, frjáls leikur og íþróttir voru fyrir hádegi. Í hádegismat fengu stelpurnar fiskibollur með karrísósu og hrísgrjónum. Eftir hádegi var Hermannaleikurinn! Hann lýsir sér þannig að stelpurnar eru flóttamenn á stríðshrjáðu svæði og eiga herbergin að vinna saman sem fjölskylda til að finna griðarstaðinn. Leikurinn gekk vel en vakti sterkar tilfinningar bæði hræðslu, spennu og ánægju, yfirleitt allar í bland.
Eftir kaffii voru landkynningar, stúlkunum var skipt niður í litla hópa og fóru á ör-fyrirlestra um nokkur mismunandi lönd. Eftir alla fyrirlestrana var heldur einkennilegur kvöldmatur þar sem stúlkunum var skipt niður af handahófi í matsalnum eftir mismunandi löndum. Þær sem sátu á Indlandi fengu hrísgrjónarétt á meðan Rúmenía fékk eggjaböku, Eþíópía poppkorn og kaffi en Bandaríkin Pítur með hakki, grænmeti og sósu. Eins og gefur að skilja voru stúlkurnar ekki mjög hrifnar af þessari skiptingu og vildu allar fá almennilegan mat eins og Bandaríkin. Eftir þennan skrítna matartíma þar sem nær allar stúlkurnar voru enn svangar fórum við og spjölluðum saman inni í setustofu um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir matnum okkar og ekki taka hreina vatninu okkar hér á Íslandi sem sjálfsögðum hlut. Eftir spjallið var stúlkunum öllum boðið í pítu með hakki, grænmeti og sósu og þær gátu allar borðað af bestu og mestu list.
Menningar þemað hélt áfram á kvöldvökunni þar sem sýndir voru dansar og fleira frá öðrum menningarsvæðum. Eftir kvöldvöku fengu stúlkurnar ávexti og kex í kvöldkaffi og síðan héldu þær út í kirkju á hugleiðingu. Síðan máttu þær bursta tennur úti í læk. Ró var komin í húsið klukkan rúmlega 11.