Starf KFUM og KFUK á Íslandi byggir á starfi nokkur hundruð sjálfboðaliða í stjórnum, nefndum og ráðum félagsins og á vettvangi í deildarstarfi fyrir börn og unglinga. Þá starfa sjálfboðaliðar við uppbyggingu sumarbúðastarfsins, aðstoða í flokkum sumarsins og taka virkan þátt í stærri viðburðum, s.s. á Sæludögum.

  • Allir sjálfboðaliðar í starfi KFUM og KFUK með börnum og ungmennum þurfa að skila inn heimild til félagsins þess efnis að hægt sé að leita upplýsinga um viðkomandi í Sakaskrá ríkisins.
  • Þá þurfa allir sjálfboðaliðar í starfi með börnum og ungmennum að taka námskeiðið Verndum þau þar sem fjallað er um ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnum og ungmennum og leiðir til að bregðast við slíku.

Hlutverki sjálfboðaliða í deildarstarfi KFUM og KFUK á Íslandi

Deildarstarf KFUM og KFUK á Íslandi felst í vikulegum fundum fyrir börn og ungmenni yfir vetrarmánuðina sem hver stendur í 1-2 klst. Á fundunum er lögð áhersla á að þjálfa og þroska félagslegt, líkamlegt og andlegt atgervi barna og ungmenna.

Skipulag funda er oft á höndum sjálfboðaliða í starfi KFUM og KFUK á Íslandi undir leiðsögn æskulýðsfulltrúa. Starfið í hverri deild er undir stjórn svokallaðs forstöðufólks. Þeim til aðstoðar eru leiðtogar (18 og eldri) og aðstoðarleiðtogar (16-18 ára). Undirbúningur og framkvæmd hvers fundar tekur að jafnaði 3-4 klst á viku fyrir þá sem að fundinum koma.

Stuðning við sjálfboðaliðana er sinnt af æskulýðsfulltrúum í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK sem útbúa/útvega fræðsluefni, lána út fundargögn og sjá um skipulag leiðtogaþjálfunar og fræðslu.

Hlutverk stjórna einstakra starfsstöðva

Stjórnir einstakra starfsstöðva og félagsins í heild sinna verkefnum sinnum í sjálfboðinni vinnu. Verkefnin felast í stefnumótun, ákvarðanatöku um rekstur viðkomandi einingar, þróunarvinnu og þátttöku í stefnumótun félagsins í heild. Stjórnir hittast á reglulegum fundum yfir veturinn og fjölmargir stjórnarmenn starfsstöðva taka einnig þátt í vinnuhelgum eða vinnuflokkum á sinni starfsstöð þar sem viðhaldi er sinnt ásamt áframhaldandi uppbyggingu.

Vinnuflokkar og vinnuhelgar

Starfsstöðvar KFUM og KFUK bjóða reglulega upp á vinnuhelgar eða vinnuflokka þar sem hverjum sem vill býðst að koma og taka til hendinni við viðhald og uppbyggingu viðkomandi starfsstöðvar.

Matvinnungar/aðstoðarforingjar í sumarbúðum

Sumarbúðirnar bjóða ungu fólki að koma og aðstoða sem sjálfboðaliðar við starfið. Verkefnin eru fjölbreytt, aðstoð í eldhúsi, hjálp í gönguferðum, garðsláttur, aðstoð við íþróttastarf og svo mætti lengi telja.

Þá eru á hverju ári nokkrir almennir starfsmenn og á stundum forstöðumenn í sumarbúðunum sem gefa vinnu sína til stuðnings starfinu.

Nánar um sjálfboðaliða

Allir sjálfboðaliðar í starfi KFUM og KFUK með börnum og ungmennum þurfa að skila inn heimild til félagsins þess efnis að hægt sé að leita upplýsinga um viðkomandi í Sakaskrá ríkisins. Jafnframt þurfa allir sjálfboðaliðar í starfi með börnum og ungmennum að taka námskeiðið Verndum þau þar sem fjallað er um ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnum og ungmennum og leiðir til að bregðast við slíku.

Öllum sjálfboðaliðum KFUM og KFUK stendur auk þess til boða mikill fjöldi af námskeiðum fyrir leiðtoga í barna- og unglingastarfi sem eru ýmist skipulögð af félaginu sjálfu eða í samstarfi við aðra aðila á sviði barna- og ungmennastarfs. Þá gefst leiðtogum reglulega tækifæri til að sækja námskeið á erlendri grund.

Í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK starfar auk þess fagfólk á sviði barna- og ungmennastarfs sem hafa að meginhlutverki stuðning og þjónustu við sjálfboðaliða á vettvangi.