KFUM og KFUK leitast við að kenna um Guð sem skapar,
Jesús Krist sem frelsar og Heilagan anda sem huggar.

Markmið

Markmið alls félagsstarfsins er að vekja trú á Krist og kalla til þjónustu í ríki hans, efla trúarlíf og siðferðiskennd og hlynna að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins. (Lög KFUM og KFUK 2. gr. A)

 • Trúaruppfræðsla KFUM og KFUK er stuðningur við fræðslu foreldra og hluti af skírnarfræðslu kristinnar kirkju.
 • Náð Guðs og elska, eins og hún birtist í lífi, starfi, dauða og upprisu Jesú Krists er meginleiðarstef í trúfræðslu félagsins.
 • KFUM og KFUK kynnir þátttakendum í starfi sínu Biblíusögur, fræðir um notkun bænarinnar í daglegu lífi og hvernig kristin trú getur mótað lífsviðhorf einstaklinga.
 • Þátttakendur í starfi KFUM og KFUK fá hjálp við að lifa trúarlífi, skynja að þau séu dýrmæt Guðs börn og fá þjálfun í að biðja til Guðs.
 • Fræðslan leggur áherslu á að elska Guðs í okkar garð, er jafnframt ákall til okkar um að endurgjalda elskuna, með því elska náungann, annast um sköpun Guðs og sýna öllu sköpunarverkinu ást og virðingu.
 • KFUM og KFUK leggur sérstaka áherslu á að miðla hugsjón kristinnar trúar um réttlátt samfélag sem byggir á grunni kærleika, friðar og sáttargjörðar svo að öll sköpun Guðs megi njóta góðs af.
 • Fræðslustarf KFUM og KFUK leitast við að virða hverja manneskju eins og hún er, í fullvissu um það að Guð fer ekki í manngreinarálit.
 • Fræðslustarf KFUM og KFUK leitast við að virða lífsskoðanir og trúarhugmyndir þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða styðjast við lífsskoðanir sem ekki eru kristnar.

Framkvæmd

Orð Guðs skal skipa öndvegi í öllu starfi félagsins. (Lög KFUM og KFUK 2. gr. B)

 • Biblíusaga eða annars konar trúarleg fræðsla á kristnum grunni fer fram á öllum fundum í deildarstarfi félagsins.
 • Að öllu jöfnu skal hefja alla fundi í starfi félagsins með bæn.
 • Í sumarbúðastarfi félagsins er boðið upp á trúarlega fræðslu á kristnum grunni eða Biblíusögu bæði kvölds og morgna. Hver dagur hefst á signingu og morgunbæn. Borðbæn skal beðin fyrir hvern hádegis- og kvöldverð. Þá er beðið með þátttakendum í herbergjum fyrir svefn.
 • Trúarleg fræðsla er sameiginlegt verkefni starfsfólks og sjálfboðaliða í starfi KFUM og KFUK,
 • Allt starfsfólk og sjálfboðaliðar í KFUM og KFUK á að hafa þess kost að sækja Biblíufræðslu á vegum félagsins. Þá skal halda reglulega námskeið um bænahald með börnum og um hvernig má segja börnum Biblíusögur.
 • Trúfræðsla fer ekki aðeins fram á fyrirframskilgreindum samverum, heldur á framkoma og fas allra þeirra sem starfa fyrir KFUM og KFUK, hvort sem um er að ræða launað starfsfólk eða sjálfboðaliða að endurspegla elsku Guðs í garð þeirra sem er sinnt í starfinu.
Unnið af Gunnari J. Gunnarssyni, Þóru Björg Sigurðardóttur og Halldóri Elíasi Guðmundssyni. Samþykkt af stjórn KFUM og KFUK á vordögum 2020.