KFUM og KFUK gerir miklar kröfur til starfsfólks síns. Hæft starfsfólk er lykillinn til að tryggja gæði, öryggi og vellíðan þátttakenda í KFUM og KFUK.  Skyldur og kröfur til þeirra sem starfa með börnum og unglingum aukast jafnt og þétt með hverju ári.  Til að hjálpa starfsfólki og sjálfboðaliðum sumarsins að uppfylla þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til þeirra, stendur KFUM og KFUK fyrir nokkrum mikilvægum námskeiðum.

Að sækja námskeiðin eru góð fjárfesting til framtíðar.  Reynslan sýnir að sú þekking sem fólk nemur gagnast þeim víða í lífnu.  Þá eru námskeiðin einnig góður vettvangur til að kynnast samstarfsfólki sumarsins. Fólk úr stjórnum sumarbúða KFUM og KFUK er velkomið á öll námskeiðin.

Hinsegin 101 (ÆV) – Sveinn Svampsted

7. febrúar kl. 18:00 – Holtavegur 28

Á námskeiðinu verður fjallað um helstu hugtök innan hinsegin regnhlífarinnar, hvað þau þýða og hvað við getum gert til að styðja við bakið á hinsegin fólki. Þekking og fræðsla í hinsegin málum er grundvöllur fyrir því að draga úr fordómum og mismunun. Námskeiðinu er ætlað að efla þekkingu og auka skilning á stöðu hinsegin fólks. Námskeiðið er á vegum Æskulýðsvettvangsins.

Verndum þau – Þorbjörg Sveinsdóttir

20. mars kl. 18:00 – Hraunbæ 123

apríl/maí rafrænt námskeið – verður auglýst síðar

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu einkenni og afleiðingar ofbeldis og vanrækslu gagnvart börnum. Við lærum að þekkja einkennin og hvernig bregðast skuli við ef grunur leikur á að barn hafi orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu. Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur og starfsmaður Barna- og fjölskyldustofu kennir á námskeiðinu. Hún samdi einnig bókina Verndum þau ásamt Ólöfu Ástu Farestveit en námskeiðið byggir á þeirri bók. Námskeiðið er á vegum Æskulýðsvettvangsins

Samskipti og siðareglur (ÆV) – Hjördís Rós Jónsdóttir og Helena Dögg Magnúsdóttir

15. apríl kl. 17:00 – Holtavegur 28

Siðareglur eru mikilvægur hlekkur í því að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna sem taka þátt í starfi KFUM og KFUK og til að tryggja öryggi þeirra, sem og starfsfólks og sjálfboðaliða í starfinu. Á námskeiðinu verður farið yfir samskipti og siðareglur Æskulýðsvettvangsins til að stuðla að heilbrigðu, uppbyggjandi, vönduðu og öruggu umhverfi fyrir starfsfólk og þátttakendur.

Allt það helsta – AKUREYRI

maí – Sunnuhlíð

Námskeið sem er sérsniðið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða fyrir norðan. Farið verður yfir helstu þætti sem snúa að starfi með börnum í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum til að undirbúa þau sem starfsfólk sem best fyrir komandi verkefni í sumar.

Aðstoðarforingjar og forsjáraðilar – Hjördís Rós Jónsdóttir

Tímasetning auglýst síðar – Holtavegur 28

Fjöldi ungmenna yngri en 18 ára taka þátt í sumarstarfi KFUM og KFUK sem sjálfboðaliðar. Þó svo þau beri ekki ábyrgð (eða lagalegar skyldur) sem starfsmenn, skiptir miklu máli að þau séu vel undirbúin fyrir hlutverk sitt. Á námskeiðinu verður farið yfir grundvallarþætti þess að starfa í sumarbúðum, m.a. samskipti við börn og samstarfsfólk. Umsjón með námskeiðinu hefur Hjördís Rós Jónsdóttir félagsráðgjafi. Í lok námskeiðsins gefst aðstoðarforingjum tækifæri á að hitta ráðningarfulltrúa sumarbúðanna og skrifa undir starfssamning.

ATH! Við viljum að forsjáraðilar sitji þennan fund með okkur.

Skyndihjálp og brunavarnir – Kristján Sigfússon og Jón Pétursson

Lok maí, nánari tímasetning auglýst síðar – Holtavegur 28

Öryggismálin eru í forgrunni í starfi KFUM og KFUK. Félagið vill að allt starfsfólk hafi grunn í skyndihjálp og brunavörnum og kunni að bregðast rétt við. Undir stjórn Jóns Péturssonar og Kristjáns Sigfússonar er farið í grundvallaratriði er lýtur að skyndihjálp og farið verður í verklegar æfingar. Þá er farið yfir eldvarnir, viðbrögð við eldsvoða, meðferð slökkvitækja o.fl.