Skilmálar vegna þátttöku í dvalarflokkum sumarbúða, leikjanámskeiðum og öðrum viðburðum KFUM og KFUK.

Kristilegt félag

1. KFUM og KFUK á Íslandi er kristilegt félag ungra manna og kvenna á Íslandi. Félagið og sjálfstæðar starfsstöðvar þess (saman nefnd félagið í skilmálum þessum) standa ár hvert fyrir ýmis konar starfsemi, þ.á m. leikjanámskeiðum og dvalarflokkum í sumarbúðum. Á viðburðum, námskeiðum og í sumarbúðum félagsins er jafnan lögð áhersla á kristna trú og kristin gildi í sambland við leik og aðra uppfræðslu. Kristileg fræðsla, bænir, söngvar, hugvekjur, helgihald og lestur í Biblíunni eru þannig eðlilegur hluti dagskrár viðburða á vegum félagsins.

Skilmálar þessir

2. Hér á eftir fara almennir skilmálar sem gilda um þátttöku í öllu starfi á vegum félagsins, þ.á.m. þátttöku barna og unglinga undir 18 ára aldri. Með skráningu í viðburð á vegum félagsins samþykkir þátttakandi og/eða foreldri eða forráðamaður þátttakanda að hlíta ákvæðum skilmálanna.

3. Skilmálar þessir ná til dvalar í sumarbúðum félagsins, þátttöku á námskeiðum, þ.m.t. leikjanámskeiðum, og þátttöku í annarri skipulegri starfsemi, samverum eða viðburðum á vegum félagsins. Í eftirfarandi ákvæðum er orðið viðburður notað um allt framangreint hvort heldur um er að ræða dvalarflokka í sumarbúðum, leikjanámskeið, helgarflokk eða aðra skipulagða starfsemi á vegum félagsins.

4. Til viðbótar almennum skilmálum þessum gilda um starfsemi félagsins ýmsar sérreglur einstakra starfsstöðva og viðburða sem þátttakendum, foreldrum eða forráðamönnum ber að kynna sér og fara eftir. Sérreglur og leiðbeiningar eru aðgengilegar og kynntar á heimasíðu félagsins.

Bókanir, greiðslur, afbókanir og nafnabreyting

5. Þátttökugjald á viðburði félagsins skal að jafnaði greiða við skráningu. Eftirfarandi eru samþykktar greiðsluleiðir:

a. Greiðsla með debet eða kreditkortum

b. Netgíró

c. Gjafabréf útgefnu af KFUM og KFUK á Íslandi og sumarbúðunum

6. Komi til afbókunar skráningar getur greiðandi fengið allt að 85% gjaldsins endurgreitt, þó aldrei undir 4.000 kr. að því tilskildu að afbókun eigi sér stað a.m.k. 7 dögum fyrir viðburð. Sé afbókað með minni en 7 daga fyrirvara er dvalargjald ekki endurgreitt. Fullt gjald er aldrei endurgreitt nema félagið felli viðburð niður. Ákvæði þetta skerðir þó ekki rétt til þess að falla frá netkaupum innan 14 daga í samræmi við og með takmörkunum ákvæða laga nr. 16/2016 um Neytendakaup, enda hafi viðburður ekki hafist. Komi til endurgreiðslu fer hún sömu leið og greiðsla barst, þ.e. endurgreitt er inn á sama greiðslukort og greitt var með. Ef greitt var með gjafabréfi, er endurgreitt með nýju gjafabréfi.

7. Ef tvö börn (eða fleiri) sem tilheyra sama fjölskyldunúmeri í Þjóðskrá eruð skráð í dvalarflokka eða leikjanámskeið, reiknast 10% afsláttur á seinna barnið sem skráð er. Afsláttur reiknast ekki á fyrra barnið. Okkur er ljóst að fjölskyldur geta verið samsettar og allskonar, en þessi afsláttur er skilyrtur við að börnin tilheyri sama fjölskyldunúmeri í Þjóðaskrá. Afslátturinn er bundinn við dvalarflokka sumarbúða og leikjanámskeið en reiknast ekki við skráningar á aðra viðburði félagsins.

8. Skráning á viðburði félagsins er persónubundin. Framsal og/eða endursala er óheimil. Nafnabreyting á skráningu getur þó átt sér stað, allt að 24 tímum fyrir brottför gegn greiðslu breytingargjalds. Jafnframt er heimilt að breyta eða færa til skráningu milli viðburða gegn greiðslu breytingargjalds.

Breytingagjaldið er 4.900 kr.

Félagið áskilur rétt til þess að hafna beiðni um nafnabreytingu ef sérstök ástæða þykir til.

Hagsmunir barna

9. Hafi þátttakandi ofnæmi, óþol eða veikindi/sjúkdóma skal upplýsa um slíkt í skráningarformi eða eftir atvikum tilkynna það skrifstofu félagsins skriflega minnst 7 dögum fyrir viðburðinn. Þeim börnum sem eiga við einhvers konar veikindi að stríða skal fylgja læknisvottorð þar sem fram komi upplýsingar um veikindin og skýr fyrirmæli læknis um meðferð, lyfjagjöf o.s.frv. Það sama á við ef þátttakandi þarf að fá eða taka lyf meðan á viðburði stendur. Þá þarf lyfið að fylgja þátttakanda og afhendast starfsmanni félagsins við brottför ásamt skriflegum leiðbeinum um notkun þess. Rétt er að benda á að ef félagið fær ekki nauðsynlegar upplýsingar með skýrum hætti um ofnæmi, óþol, veikindi, sjúkdóma eða lyfjanotkun barns, telst það til vanrækslu af hálfu foreldra/forráðamanna sem félaginu ber að tilkynna til þar til bærra yfirvalda.

10. Hagsmunir, velferð og öryggi barna er ávallt í fyrirrúmi í starfi KFUM og KFUK. Verði starfsfólk félagsins þess áskynja, eða að grunur vaknar að barn sem tekur þátt í viðburði búi ekki við öryggi í sínu nærumhverfi eða að velferð þess sé ógnað, ber félaginu að tilkynna það til þar til bærra yfirvalda samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Að yfirgefa viðburð eða hætta við þátttöku

11. Ekki eru öll börn sem ráða við að fara eða vera í sumarbúðum þegar á hólminn er komið. Fjölmargar ástæður geta legið að baki að barn vill yfirgefa viðburð, eða forsjáraðili kýs að sækja barn sitt úr viðburði áður en honum líkur. Kjósi þátttakandi, foreldri eða forsjáraðili þátttakanda að yfirgefa viðburð, hætta þátttöku, eða sækja barn sitt úr viðburði áður en honum líkur, skal slíkt gert í fullu samráði við forstöðumanneskju viðburðar. Tryggja þarf að slíkt valdi ekki öðrum þátttakendum óþarfa truflun. Afsláttur og/eða endurgreiðsla er ekki veitt þótt viðburður sé ekki að fullu nýttur.

12. Kjósi þátttakandi, foreldri eða forráðamaður þátttakanda að koma sér sjálfum eða barni sínu beint á viðburð eða beint úr viðburði án þess að nýta sér skipulagðar ferðir á vegum félagsins, s.s. rútuferðir, skal hafa samráð um fyrirkomulag slíks við skrifstofu og/eða forstöðumanneskju viðkomandi viðburðar. Fylgja skal leiðbeiningum og viðmiðum sem settar eru s.s. um tímasetningar.

13. Félagið leggur metnað sinn í að mæta börnum með ólíkar þarfir. Þó verður félagið að gera þær kröfur að börnin séu hæf til að taka þátt í skipulagðri dagskrá. Félagið getur ekki tekið við börnum sem hafa alvarlegan hegðunarvanda, börnum sem ekki geta fylgt dagskrá eða glíma við alvarlegar raskanir svo að öðrum börnum stendur ógn af þeim. Það á einnig við um börn sem þurfa sérhæfðan félagslegan stuðning eða þurfa fylgdarmann við daglegar þarfir.

Bent er á sérstaka dvalarflokka (Gauraflokk í Vatnaskógi og Stelpur í stuði í Ölveri) fyrir börn með hegðunarraskanir sem valda því að hefðbundnir dvalarflokkar henta þeim ekki.

14. Félagið áskilur sér rétt til að vísa þátttakanda úr viðburði, ef hann sýnir af sér hegðun sem skemmir fyrir öðrum, setur dagskrá úr skorðum eða ógnar öðrum þátttakendum eða starfsfólki. Er slík ákvörðun tekin af forstöðumanneskju viðburðar. Þá ber foreldri eða forsjáraðila að sækja barnið. Hafi það ekki tök á því verður barnið sent heim á kostnað viðkomandi.

Komi til þess að þátttakanda sé vísað úr viðburði á grundvelli þessa ákvæðis er þátttökugjald ekki endurgreitt.

15. Heimsóknir til barna í sumarbúðum félagsins eru almennt ekki leyfðar nema í undantekningartilfellum og þá bæði með nægum fyrirvara og í fullu samráði við forstöðumanneskju.

Ofnæmi, fæðuóþol, sælgæti og sérþarfir

16. Félagið leitast öllu jafna við að koma til móts við börn sem haldin eru fæðuóþoli og fæðuofnæmi. Brugðist er við slíku í samstarfi við foreldra/forráðamenn og í samræmi við leiðbeiningar læknis s.s. á læknisvottorði, enda hafi verið tilkynnt um slíkt tímanlega í samræmi við 9.

gr. skilmála þessara. Félaginu er þó ekki skylt að koma til móts við matarvenjur einstaklinga vegna tiltekins lífstíls, lífskoðana eða trúarbragða þátttakenda.

17. Í dvalarflokkum sumarbúða er óheimilt að taka með sælgæti, orkudrykki eða önnur matvæli. Veita má undantekningu frá þessu ef viðkomandi þátttakandi er með matarofnæmi, fæðuóþol eða þarf á sérstöku fæði að halda að læknisráði, enda sé samráð haft við forstöðumanneskju með nægjanlegum fyrirvara.

Fatnaður

18. Þátttakendur, foreldrar og forsjáraðilar þátttakenda skulu tryggja að viðeigandi fatnaður og búnaður sem þörf er á í viðburði sé hafður meðferðis. Vakin er athygli á því að gefnar eru út leiðbeiningar um viðeigandi fatnað og klæðaburð vegna flestra viðburða sem hafa ber til hliðsjónar. Vinsamlegast athugið að ekki er þvegið af börnunum í sumarbúðum eða öðrum viðburðum á vegum félagsins. Félagið ber ekki ábyrgð á fötum eða búnaði sem þátttakendur taka með sér á viðburði. Mælst er til þess að merkja fatnað með nafni og símanúmeri viðkomandi.

19. Óskilamunum er safnað saman í aðalstöðvum KFUM og KFUK við Holtaveg og í félagsheimili KFUM og KFUK á Akureyri. Félagið áskilur sér rétt til að ráðstafa óskilamunum, fötum og öðrum munum sem skildir eru eftir í sumarbúðum og á viðburðum.

Óheimilt

20. Í öllum dvalarflokkum sumarbúða er þátttakendum óheimilt að hafa meðferðis tölvur, spjaldtölvur, síma eða önnur sambærileg raftæki. Í öðrum viðburðum félagsins kunna sambærilegar takmarkanir að eiga við, vísast um slíkar takmarkanir til sérreglna sem birtar eru á heimasíðu félagsins.

21. Meðferð áfengis, tóbaks, rafretta og vímuefna er bönnuð á öllum viðburðum félagsins. Brot gegn þessu ákvæði eru alvarleg og geta leitt til fyrirvaralausrar brottvísunar af starfssvæðum og viðburðum félagsins án rétts til endurgreiðslu.

22. Á viðburðum á vegum félagsins er með öllu óheimilt er að taka með eða bera á sér vopn, hnífa eða önnur tæki eða efni sem talist geta til vopna eða valdið geta tjóni á fólki eða munum. Brot gegn þessu ákvæði eru alvarleg og geta leitt til fyrirvaralausrar brottvísunar af starfssvæðum og viðburðum félagsins án rétts til endurgreiðslu.

Tjón

23. Verði þátttakandi valdur að tjóni hvort heldur er gagnvart félaginu, starfsmönnum eða þátttakendum á vegum félagsins kann hann að vera skaðabótaskyldur.

Myndir

24. Í sumarbúðunum og á viðburðum félagsins eru teknar myndir af þátttakendum í leik og starfi, þeim til ánægju og til að veita foreldrum og forsjáraðilum innsýn í daglegt starf sumarbúðanna. Myndir sem teknar, þ. á m. af þátttakendum á viðburðum og í sumarbúðum félagsins, geta verið birtar á heimasíðu og í öðru kynningarstarfi félagsins.

Ef forsjáraðili vill alls EKKI að tekin sé mynd af barni sínu, óskum við eftir að það sé tekið fram við skráningu í viðburðinn.

25. Félagið áskilur sér rétt til þess að breyta skilmálum þessum með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara, enda séu nýir skilmálar kynntir og aðgengilegir á vefsíðu félagsins.

Skilmálar síðast uppfærðir 1. febrúar 2023