KFUM og KFUK er frjáls félagasamtök sem standa á sama grunni og evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi. Þau vilja starfa innan kirkjunnar og með kirkjunni, en eru þó sjálfstæð og lúta eigin stjórn. Með starfi sínu vilja þau vera þátttakendur í skírnarfræðslu kirkjunnar og styðja foreldra í trúarlegri mótun barna sinna.

Starf KFUM og KFUK er umfangsmikið og fjölbreytt:

Á veturna fer fram barna- og unglingastarf  í um 30 deildum víða um land sem halda fundi einu sinni í viku. Íþróttamót og hátíðir eru fastur liður í starfinu ásamt styttri og lengri vettvangsferðum.

Á sumrin taka við sumarbúðir sem KFUM og KFUK reka á fimm stöðum á landinu og leikjanámskeið sem haldin eru í Reykjavík, Kópavogi og í Reykjanesbæ.

Fullorðinsstarf er mikilvægur þáttur félagsstarfs KFUM og KFUK , samkomur, fræðandi og uppbyggilegir fundir, námskeiðahald, helgarsamverur í sumarbúðum félagsins og fleira.

Leikskólinn Vinagarður er kristilegur leikskóli, staðsettur í Laugardalnum í Reykjavík. Leikskólinn er einkaskóli og rekinn af KFUM og KFUK á Íslandi.

KFUM og KFUK tekur virkan þátt í Æskulýðsvettvangnum (ÆV) sem er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.