Upplýsingar vegna sumarbúðadvalar

Almennar upplýsingar um starf KFUM og KFUK á Íslandi

KFUM og KFUK er æskulýðshreyfing sem hefur að markmiði að vekja trú á Krist og kalla til þjónustu í ríki hans, efla trúarlíf og siðferðiskennd og hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins. Þríhyrningurinn í merki félaganna undirstrikar þetta, en hliðar hans tákna líkama, sál og anda. Aðferðafræðin er aðferð Jesú Krists: Að mæta hverri manneskju af umhyggju, kærleika og virðingu.

Vetrarstarf félagsins, svokallað deildarstarf, byggir á vikulegum samverum. Umsjón með samverunum hafa sjálfboðaliðar sem hlotið hafa þjálfun og fræðslu á vettvangi KFUM og KFUK.

Sumarstarf félagsins byggir á 3-7 daga dvalarflokkum og námskeiðum undir stjórn starfsmanna og sjálfboðaliða sem hafa tekið fjölbreytt námskeið og fengið ítarlega fræðslu á vettvangi KFUM og KFUK.

Allir sjálfboðaliðar og starfsmenn í starfi KFUM og KFUK með börnum og ungmennum þurfa að skila inn heimild til félagsins þess efnis að hægt sé að leita upplýsinga um viðkomandi í Sakaskrá ríkisins. Jafnframt þurfa allir sjálfboðaliðar og starfsmenn í starfi með börnum og ungmennum að taka námskeiðið Verndum þau þar sem fjallað er um ofbeldi og vanrækslu gagnvart börnum og ungmennum og leiðir til að bregðast við slíku.

Öllum sjálfboðaliðum og starfsmönnum KFUM og KFUK stendur auk þess til boða mikill fjöldi af námskeiðum fyrir leiðtoga í barna- og unglingastarfi sem eru ýmist skipulögð af félaginu sjálfu eða í samstarfi við aðra aðila á sviði barna- og ungmennastarfs. Þá gefst leiðtogum reglulega tækifæri til að sækja námskeið á erlendri grund.

Félagið hefur auk innleitt siðareglur fyrir alla sjálfboðaliða og starfsmenn í samráði við Æskulýðsvettvanginn. Þá hefur félagið sett sér forvarnastefnu sem er fylgt eftir með kerfisbundnum hætti. Í samvinnu við Æskulýðsvettvanginn hefur félagið einnig unnið að stefnumótun í eineltisvörnum.

KFUM og KFUK á Íslandi áskilur sér rétt til notkunar á myndum af þátttakendum í starfi og viðburðum á vegum félagsins. Félagið mun hafa að leiðarljósi að gæta varúðar og nærgætni við myndbirtingar í samræmi við leiðbeinandi álit persónuverndar.

Í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK starfar fagfólk á sviði barna- og ungmennastarfs sem hafa að meginhlutverki stuðning og þjónustu við sjálfboðaliða á vettvangi.