KFUM og KFUK hefur það hlutverk að efla ungt fólk til líkama, sálar og anda. Sem kristilegt félag leitast KFUM og KFUK við að efla trúarþroska ungs fólks og sjálfsmynd þeirra sem kristinna einstaklinga. Með leiðtogaþjálfuninni fyrir 15-17 ára viljum við auka hæfni og efla sjálfstraust. Við viljum hjálpa ungu fólki að vera leiðtogar í eigin lífi og auka getu þeirra til að takast á við þau fjölmörgu tækifæri sem þeim bjóðast.

Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK tekur einnig mið af því að á hverju ári þarf félagið hóp af ungu fólki til að starfa á vettvangi þess. Sem starfsmenn í sumarbúðum, leiðtogar í æskulýðsstarfi, verkefnastjórar í viðburðum eða til að taka sæti í stjórnum og nefndum. Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK skapar góðan grunn til frekari starfa á vettvangi félagsins.

Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK byggir á fjórum stoðum sem hafa beina skírskotun í nafn félagsins.

K Kristilegri þátturinn hefur það að markmiði að efla trúarþroska einstaklingsins. Fræðsla um kristna trú og gildi er fyrsta stoðin og órjúfanlegur þáttur af ungleiðtogaþjálfun félagsins.

F Við erum frjáls félagasamtök. Með almennri félagsmálafræðslu gerum við einstaklinginn hæfari til að koma fram og sinna félagsmálum.

U Við erum æskulýðshreyfing. Þriðja stoðin hefur það að markmiði að gera einstaklinginn hæfan til að vera leiðtogi í barna- og æskulýðsstarfi.

M/K Við stuðlum að mannrækt og mannúð. Því snýr fjórða stoðin að því að styrkja og efla sjálfsmynd, frumkvæði og áræðni einstaklingsins, auk þess að horfa til verkefna sem eru mikilvæg og gagnleg samfélaginu.

Skipulag þjálfunarinnar

Helgarnámskeið

Hvert misseri hefst með helgarnámskeiði (í september og í janúar) sem haldin eru í einum af sumarbúðum KFUM og KFUK. Á helgarnámskeiðunum fer fram fræðsla úr öllum fjórum stoðum þjálfunarinnar. Fræðslan er stigskipt svo þeir leiðtogar sem hafa komið áður fá alltaf fræðslu við hæfi í samræmi við reynslu og fyrri námskeið. Auk þess eru helgarnámskeiðin mikilvægt hópefli þátttakenda og tækifæri til að kynnast betur hvert öðru, læra af hvert öðru og miðla reynslu á jafningjagrundvelli.

Verkleg þjálfun

Lagt er upp úr að þátttakendur fái þjálfun á vettvangi starfsins, svo þau geti strax nýtt og náð tengingu við það sem þau læra. Verklega þjálfunin fer fram í vikulegu barna- og æskulýðsstarfi félagsins og/eða kirkjunnar, í viðburðum félagsins og sumarbúðum þess. Leiðtogar fá vinnubók til að leysa verkefni og ígrunda það sem þeir hafa lært. Þeir njóta einnig leiðsagnar forstöðumanns.

Lokasamvera

Hverju misseri er lokað með samveru, þar sem þátttakendur eiga saman notalega kvöldstund, borða góðan mat og bera saman bækur sínar.

Utanlandsferð

Að tveimur vetrum liðnum er stefnt á utanlandsferð sem er í senn námsferð og útskriftarferð. Þá er farið á mót, viðburð eða leiðtoganámskeið í samstarfi við önnur KFUM og KFUK félög í Evrópu. Utanlandsferðin er ekki hluti af þátttökugjaldi leiðtogaþjálfunar, en KFUM og KFUK niðurgreiðir ferðina að hluta.

Kostnaður

Þátttökugjald í leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK er 29.500 kr. fyrir hvert misseri. Innifalið í því gjaldi er helgarnámskeið ásamt ferðum, þátttaka í viðburðum, starfsgögn og lokasamvera. Aðstoðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK fá námskeiðsgjaldið niðurfellt.

Algengt er að sóknir kosti efnileg ungmenni til þátttöku í leiðtogaþjálfun á móti því sem þau leggja sitt af mörkum sem aðstoðarleiðtogar í barna- og ungingastarfi kirkjunnar.

Skráning og nánari upplýsingar

Skráning fer fram á skráningarsíðu KFUM og KFUK, www.sumarfjor.is. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu félagsins www.kfum.is.

Hæfniviðmið

Að tveggja ára þjálfun lokinni viljum við að þátttakandinn hafi öðlast færni á eftirfarandi sviðum:

K-kristilegt

– Hafi sterka sjálfsmynd sem kristinn einstaklingur
– Hafi grunnþekkingu á lykilþáttum kristinnar trúar
– Geti miðlað, flutt hugvekju, bæn og leitt helgistund.

F-félag

– Þekki til og kunni formleg fundarsköp.
– Treysti sér til að taka til máls á fundum og geri það vel
– Geti lagt sitt af mörkum í stjórnum og nefndum
– Geti haldið utan um og stýrt einfaldari viðburðum
– Þekki KFUM og KFUK og hafi góða yfirsýn yfir starf félagsins

U-ungra

– Geti stýrt dagskrá og leikjum á fundi eða kvöldvöku með börnum og unglingum.
– Þekki hvað má og hvað má ekki í samskiptum við börn og unglinga.

M/K-manna og kvenna

– Hafi sterka jákvæða sjálfsmynd og geti staðið með sjálfum sér.
– Geti sett sér markmið og áform til að ná þeim.
– Sýni frumkvæði í leik og starfi.
– Eigi auðvelt með samskipti í ólíkum aðstæðum.
– Eigi auðvelt með að setja sig í spor annarra.