Heimssamband KFUM var stofnað árið 1855 á fyrsta heimsþingi félagsins er haldið var í París. Á þinginu var fyrsta markmiðsyfirlýsing KFUM samin, Parísargrundvöllurinn.
Áskorun 21 var samþykkt á 14. heimsþingi KFUM sem haldið var í Frechen í Þýskalandi árið 1998. Í áskoruninni segir:

Við staðfestum Parísargrundvöllinn frá 1855 sem áframhaldandi grundvöll KFUM. Jafnframt lýsum við því yfir, nú þegar við stöndum við þröskuld nýs árþúsunds, að KFUM sé alþjóðleg, kristileg og samkirkjuleg sjálfboðaliðahreyfing fyrir karla og konur sem leggur sérstaka áherslu á virka þátttöku ungs fólks og leitast við að miðla hugsjón kristinnar trúar um að byggja upp réttlátt samfélag á grunni kærleika, friðar og sáttargjörðar svo að öll sköpunin fái notið sín til fulls.

Sérhvert KFUM-félag er þess vegna kallað til þess að leggja áherslu á ákveðnar áskoranir sem verður að forgangsraða í samræmi við þær aðstæður sem félagið starfar í. Áskoranirnar, sem eru afurð frekari þróunar Kampala-gildanna, eru eftirfarandi:

  • Að flytja góðu fréttirnar um Jesú Krist og vinna staðfastlega að andlegri, vitsmunalegri og líkamlegri velferð einstaklinga og samfélaga.
  • Að hvetja og efla alla, einkum ungt fólk og konur, til þess að axla aukna ábyrgð og takast á hendur leiðtogahlutverk á öllum stigum með það að markmiði að skapa betra og réttlátara samfélag.
  • Að vera talsmenn fyrir réttindum kvenna og halda á lofti réttindum barna.
  • Að hlúa að samtali og samstarfi fólks sem hefur ólíka trú eða lífsskoðun, viðurkenna og virða menningarlegan bakgrunn þess og efla menningarlega endurnýjun.
  • Að taka stöðu með fátækum, þeim sem hafa verið hrakin af heimilum sínum og þeirra sem eru kúgaðir sökum kynþáttar, trúar eða þjóðernis.
  • Að leitast við að miðla sátt og friði í aðstæðum þar sem óeining ríkir og efla rétt einstaklinga til þess að hafa áhrif á eigið líf með því að virkja fólk til þáttöku í starfi sem stuðlar að þroska þess og frumkvæði.
  • Að vernda sköpun Guðs gegn öllu því sem gæti skaðað hana eða eytt og standa vörð um og viðhalda auðlindum jarðar í þágu komandi kynslóða.
  • Til þess að mæta þessum áskorunum mun KFUM þróa samstarf á öllum stigum með það að leiðarljósi að efla sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga.

Samþykkt á 14. heimsþingi KFUM í Frechen í Þýskalandi árið 1998.