Skilgreining
Markmið forvarnarstarfs er að rækta þátttakendur til líkama, sálar og anda. Kenna þeim að elska og virða eigið líf og annarra. Veita þeim tækifæri til þátttöku í skapandi félagsstarfi með jafningjum sem með stuðningi ganga í gegnum breytingar unglingsára.

Einstaklingur
Lögð er rækt við hvern einstakling og markvisst unnið að því að laða fram það besta hjá hverjum og einum þannig að hann finni tilgang og ábyrgð með þátttöku sinni í starfinu.

Gullna reglan
Í öllu því sem við gerum og kennum lítum við til gullnu reglunnar sem segir:
„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.”

Innihald
Gefið er út fundarefni fyrir hvert misseri og vandað til innihalds alls fræðsluefnis, bæði sumarbúða og vetrarstarfs. Lögð er áhersla á kærleika, hjálpsemi og vináttu. Biblían hefur ótal sögur sem við getum lært af í dag og eiga fullt erindi við alla.

Fyrirmyndir
Leiðtogar eru fyrirmyndir og á þeim hvílir mikil ábyrgð. Hlutverk þeirra er að hvetja og uppörva til góðra verka. Hlusta af athygli og leggja sig fram um að láta sig varða hag og líðan þeirra sem þeir þjónusta.

Bindindi
Allt starf félagsins skal vera laust við áfengi, tóbak og önnur vímuefni.

Umburðarlyndi
Fræðsla félagsins skal ávallt hafa í heiðri rétt einstaklingsins til að velja og hafna. Réttur einstaklingsins til að hafa eigin skoðanir og standa með þeim felur í sér kröfu um að sýna skoðunum annarra umburðarlyndi og skilning.

Lífssýn
Allar manneskjur eru dýrmæt sköpun Guðs og elskaðar af honum. Við í KFUM og KFUK viljum vera boðberar kærleika og friðar. Gleði okkar er að gleðja aðra og styðja við hvern þann sem á þarf að halda. Enginn er ómögulegur eða vonlaus. Vonin er í kærleikanum.

Þjónusta
Markmiðið er að ná til sem flestra ungmenna í gegnum sumarbúðir, leikjanámskeið, deildarstarf og einstakar uppákomur og tilboð. Við köllum til sjálfboðaliða sem hafa í gegnum starf félagsins mótað sjálfsmynd sína og vilja gefa af sér til annarra. Þannig getum við haldið gangandi því mikilvæga starfi sem KFUM og KFUK gegnir og hefur gegnt í yfir 100 ár.