Lög Vindáshlíðar
Samþykkt á aðalfundi Hlíðarmeyja KFUK 26. maí 2020
1. grein
Starfsgreinin heitir Sumarstarf KFUK (Kristilegt félag ungra kvenna) í Vindáshlíð og er sjálfstæð
starfsgrein í starfi KFUM og KFUK á Íslandi og hefur starfsemi þess aðsetur í Vindáshlíð í Kjós.
2. grein
Markmið Sumarstarfs KFUK er:
a) að vinna ungar stúlkur fyrir Jesúm Krist
b) að stuðla að viðhaldi og uppbyggingu á húseignum, umhverfi og skógrækt staðarins.
c) að vekja áhuga á útiveru og náttúru Vindáshlíðar.
3. grein
Hlíðarstúlkur nefnast allar þær, sem dvelja minnst þrjá sólarhringa samfleytt í Vindáshlíð á vegum
KFUM og KFUK á Íslandi og eru félagar í einhverri deild félagsins.
4. grein
Stjórn sumarstarfsins skal boða til almennrar samveru fyrir Hlíðarstúlkur að minnsta kosti einu sinni á
ári, þar sem Guðs orð er boðað.
5. grein
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. apríl ár hvert og til hans boðað með minnst viku fyrirvara.
Atkvæðisrétt hafa félagar í KFUM og KFUK á Íslandi sem greitt hafa félagsgjöld.
Á aðalfundi skal kjósa í stjórn. Stjórnina skipa sjö félagar í KFUM og KFUK á Íslandi. Einn er tilnefndur
af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til eins árs í senn. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn og þannig að á
víxl gangi þrír félagar í KFUM og KFUK á Íslandi úr stjórn á hverjum aðalfundi. Tveir varamenn skulu
kjörnir til eins árs á aðalfundi Vindáshlíðar. Áður en kosið er um varamenn skal niðurstaða kosninga
aðalmanna liggja fyrir.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum
Á aðalfundi skulu enn fremur tilnefndir tveir skoðunarmenn reikninga, til eins árs í senn.
Stjórnin skal á hverjum aðalfundi gefa skýrslu um starf KFUK í Vindáshlíð á liðnu ári og jafnframt
leggja fram endurskoðaða rekstrar- og efnahagsreikninga til samþykktar.
6. grein
Eigi síðar en mánuði fyrir hvern aðalfund, skipar stjórn Sumarstarfsins tvo félaga úr KFUM og KFUK á
Íslandi í kjörstjórn. Skal hún vera utan stjórnar. Hlutverk kjörstjórnarinnar er að taka á móti tillögum
og setja upp kjörlista með allt að tíu nöfnum. Kjörgengir eru félagar í KFUM og KFUK á Íslandi.
Tillögur um félaga úr KFUM og KFUK á Íslandi á kjörlista skulu berast kjörstjórn eigi síðar en tíu
dögum fyrir aðalfund. Ef engar tillögur berast velur kjörstjórn sjálf félaga úr KFUM og KFUK á Íslandi á
listann.
7. grein
Stjórnin heldur fundi einu sinni í mánuði og oftar ef þörf krefur. Formaður boðar til stjórnarfunda og
stýrir þeim. Gjaldkeri skal annast reikningshald og hafa umsjón með rekstrar- og efnahgsreikningum.
Ritari skal halda fundagerðarbók og færa í hana það, sem gerist á fundum stjórnarinnar og á
aðalfundi. Auk þess semur hann starfsskýrslu stjórnarinnar fyrir hvern aðalfund.
8. grein
Eigi má ávaxta sjóði í eigu Sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð nema í bönkum eða sparisjóðum, né veita
lán úr þeim. Þó skal stjórn Sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð heimilt að ráðstafa sjóðum og eignum á
annan hátt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, þó aðeins með fullu samþykki stjórnar KFUM og
KFUK á Íslandi. Eigi má þó ráðstafa eignum eða tekjum Sumarstarfs KFUK í Vindáhslíð eða veðsetja
þær nema í beina þágu Sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð og í samræmi við tilgang þess.
9. grein
Leggist Sumarstarf KFUK í Vindáshlíð niður af einhverjum ástæðum skal stjórn KFUM og KFUK á
Íslandi ráðstafa eignum þess. Sumarstarf KFUK í Vindáhlíð getur ekki gengið úr KFUM og KFUK á
Íslandi með eignir sínar.
10. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf 2/3 fundarmanna til að samþykkja
lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn sumarstarfsins skriflega eigi síðar en
mánuði fyrir aðalfund og lagðar fyrir stjórnarfund, næstan á undan aðalfundi. Jafnframt skulu þær
liggja frammi í Aðalstöðvum KFUM og KFUK á Íslandi. Lagabreytingar öðlast því aðeins gildi að stjórn
KFUM og KFUK á Íslandi staðfesti þær.