Æskulýðsvettvangurinn, sem er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalags íslenskra skáta og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, líður ekki ofbeldi af neinu tagi innan síns starfs. Á þess vegum starfar fagráð sem sérstaklega tekur á kynferðisbrotum sem upp kunna að koma innan samtakanna.

Ef þú vilt leggja fram kvörtun vegna kynferðisbrots

  • Ef erindi þitt varðar barn skaltu tafarlaust tilkynna það til barnaverndar. Síminn er 112.
  • Ef þú vilt leggja fram kvörtun vegna kynferðisbrots/áreitni í leik og starfi innan samtakanna skaltu setja þig í samband við fagráð Æskulýðsvettvangsins í gegnum tölvupóstinn, fagrad@aeskulydsvettvangurinn.is. Fagráðið mun í kjölfarið hafa samband við þig.

Hvað er kynferðisbrot?

Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga.

Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður, hún er ekki gagnkvæm, ekki á jafnræðisgrundvelli.

Nánari upplýsingar: Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota hjá Æskulýðsvettvanginum