Lög KFUM og KFUK í Vindáshlíð
- grein: Skilgreining á félaginu
Félagið heitir KFUM og KFUK í Vindáshlíð, er sjálfstæð starfsstöð í starfi KFUM og KFUK á Íslandi og starfar á grundvelli laga KFUM og KFUK á Íslandi. Starfsemin hefur aðsetur í Vindáshlíð í Kjós. KFUM og KFUK í Vindáshlíð er almannaheillafélag og skráð í almannaheillaskrá.
- grein: Hlíðarmeyjar
Hlíðarmeyjar teljast öll þau sem dvelja minnst í þrjár nætur samfleytt í Vindáshlíð í starfi á vegum KFUM og KFUK í Vindáshlíð.
- grein: Markmið
Markmið KFUM og KFUK í Vindáshlíð er:
- a) Að leiða fólk til trúar á Jesú Krist.
- b) Að stuðla að viðhaldi og uppbyggingu á húseignum, umhverfi og skógrækt staðarins.
- c) Að vekja áhuga á útiveru og náttúru Vindáshlíðar.
- d) Að afla fjár til hagsbóta fyrir starfið í Vindáshlíð.
Stjórn KFUM og KFUK í Vindáshlíð vinnur að markmiðum sínum með skipulögðum dvalarflokkum, mótum, útgáfu og fræðslustarfi, fundarhöldum, fjáröflun, skógrækt og á annan þann hátt sem stjórnin ákveður hverju sinni í samræmi við þessi lög.
- grein: Stjórn KFUM og KFUK í Vindáshlíð
Á aðalfundi skal kosið í stjórn KFUM og KFUK í Vindáshlíð. Stjórnina skipa sjö aðalmenn og tveir varamenn, sem allir skulu vera fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi. Einn aðalmaður er skipaður af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til eins árs í senn. Þrír aðalmenn eru kosnir til tveggja ára í senn og þannig að á víxl gangi þrír úr stjórn á hverjum aðalfundi. Tveir varamenn skulu kjörnir til eins árs í senn. Áður en kosið er um varamenn skal niðurstaða kosninga aðalmanna liggja fyrir. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skal skipa formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Í önnur hlutverk skal skipað eftir þörfum hverju sinni.
- grein: Hlutverk stjórnar KFUM og KFUK í Vindáshlíð
Stjórnin heldur fundi einu sinni í mánuði og oftar ef þörf krefur. Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Gjaldkeri skal annast reikningshald og hafa umsjón með rekstrar- og efnahagsreikningum. Ritari skráir fundargerðir stjórnarfunda, annast varðveislu þeirra og ber ábyrgð á starfsskýrslu stjórnarinnar fyrir hvern aðalfund starfsstöðvarinnar.
- grein: Kjörstjórn
Eigi síðar en mánuði fyrir hvern aðalfund, skipar stjórn KFUM og KFUK í Vindáshlíð tvo félaga úr KFUM og KFUK á Íslandi í kjörstjórn. Skal hún vera utan stjórnar KFUM og KFUK í Vindáshlíð. Hlutverk kjörstjórnar er að stilla upp kjörlista fyrir stjórnarkjör, og skulu tilkynningar um framboð til stjórnar berast kjörstjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Kjörgengir eru fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi.
- grein: Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. apríl ár hvert og til hans boðað með minnst viku fyrirvara. Atkvæðisrétt hafa félagar í KFUM og KFUK á Íslandi sem greitt hafa félagsgjöld.
Á aðalfundi skal eftirfarandi vera á dagskrá:
- Starfsskýrsla stjórnar lögð fram til umræðu og samþykktar.
- Endurskoðaðir rekstrar- og efnahagsreikningar lagðir fram til umræðu og samþykktar.
- Fjárhags- og starfsáætlanir kynntar og lagðar fram til samþykktar.
- Afgreiðsla lagabreytinga, sbr. 10. gr.
- Stjórnarkjör, sbr. 4., 5 og 6. gr.
- Tilnefning tveggja skoðunarmanna reikninga, kosnir til eins árs í senn.
- Önnur mál.
- grein: Sjóðir og annað fé
Eigi má ávaxta sjóði í eigu KFUM og KFUK í Vindáshlíð nema í bönkum eða sparisjóðum, né veita lán úr þeim. Þó skal stjórn KFUM og KFUK í Vindáshlíð heimilt að ráðstafa sjóðum og eignum á annan hátt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, þó aðeins með fullu samþykki stjórnar KFUM og KFUK á Íslandi. Eigi má þó ráðstafa eignum eða tekjum KFUM og KFUK í Vindáshlíð eða veðsetja þær nema í beina þágu KFUM og KFUK í Vindáshlíð og í samræmi við tilgang þess.
- grein: Ráðstöfun eigna
Leggist KFUM og KFUK í Vindáshlíð niður af einhverjum ástæðum skal stjórn KFUM og KFUK á Íslandi ráðstafa eignum þess. KFUM og KFUK í Vindáhlíð getur ekki gengið úr KFUM og KFUK á Íslandi með eignir sínar.
- grein: Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi KFUM og KFUK í Vindáshlíð og þarf 2/3 atkvæðisbærra fundamanna til að samþykkja lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn KFUM og KFUK í Vindáshlíð skriflega, eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund starfsstöðvarinnar og þær lagðar fyrir stjórnarfund. Tilkynna skal um þær í aðalfundaboði og skulu þær liggja frammi í aðalstöðvum KFUM og KFUK á Íslandi að minnsta kosti viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar sem samþykktar eru á aðalfundi KFUM og KFUK í Vindáshlíð öðlast þó aðeins gildi ef stjórn KFUM og KFUK á Íslandi samþykkir þær.
Samþykkt á aðalfundi 25.mars 2025
og samþykkt af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi 7. apríl 2025.