Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK fyrir 15-17 ára byggist á tveimur sjálfstæðum helgarnámskeiðum á vetri. Á milli námskeiða fá þátttakendur verklega þjálfun á vettvangi starfsins. Næsta námskeið verður haldið í Vindáshlíð dagana 21.–23. september 2018.

Á námskeiðinu er boðið upp á fræðslu fyrir 15–17 ára ungleiðtoga (fædda 2001–2003). Með leiðtogaþjálfuninni viljum við auka hæfni og efla sjálfstraust. Við viljum hjálpa ungu fólki að vera leiðtogar í eigin lífi og auka getu þeirra til að takast á við þau fjölmörgu tækifæri sem þeim bjóðast. Leiðtogaþjálfun KFUM og KFUK er hugsuð fyrir alla sem hafa áhuga á að starfa sem leiðtogar í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK, bæði í sumar- og vetrarstarfi félagsins.

Á sama tíma í Vindáshlíð verður jafnframt námskeið fyrir lengra komna (þau sem tóku þátt í leiðtogaþjálfun veturinn 2017–2018), þar sem farið verður dýpra í verkefni sem leiðtogar þurfa að takast á við.

Hvað er kennt?

Fræðslunni er skipt upp í fjóra efnisflokka og þess gætt að á hverju námskeiði sé eitthvað kennt úr hverjum flokki.

  • K = kristin fræðsla
  • F = félagsmálafræðsla
  • U = ungmennalýðræði
  • M = mannrækt

Skráning fer fram á skráningarsíðu KFUM og KFUK, www.sumarfjor.is, undirflokknum Vetrarstarf KFUM og KFUK.

Nánari upplýsingar má finna hjá Hjördísi Rós verkefnastjóra í síma 588-8899 eða á hjordis@kfum.is.