Kvennaflokkur í Vindáshlíð, dagana 24. – 26. ágúst, verður sem fyrr veisla fyrir bragðlaukana í margvíslegum skilningi. Sr. Petrína Mjöll verður með hugvekjur sem bera yfirskriftina Sætari en hunang (Sálmur 19:11) og Dýrmætari en gull og sætari en hunang og mun koma inn á sjálfsvirðingu, lífsgleði og hamingju. Einnig verður kristileg íhugun eða kyrrðarbæn stunduð. Eftir hádegi á laugardeginu er yfirskriftin Ljúflegt en salti kryddað en þá fjallar súrkálsdrottningin Dagný Hermannsdóttir í máli og myndum um grunnaðferðir að súrkálsgerjun og gefur okkur að smakka af grænmeti, chutneyi, söltuðum sítrónum, kimchi og fleiru góðgæti. Kvöldvakan verður á sínum stað ásamt helgistundinni á sunnudeginum. Verð með dagskrá, gistingu og mat er 14.900 kr. Allar konur 18 ára og eldri eru hjartanlega velkomnar og hvattar til að fjölmenna.