Tillaga að lagabreytingu á lögum
Sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð

Stjórn Sumarstarf KFUK í Vindáshlíð leggur til eftirfarandi breytingu á 5. gr. og 6. gr. laga starfsgreinarinnar.

Í dag hljómar 5. gr. svona:

5. gr.
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. apríl ár hvert og til hans boðað með minnst viku fyrirvara.
Atkvæðisrétt hafa félagar í KFUM og KFUK á Íslandi sem greitt hafa félagsgjöld.
Á aðalfundi skal kjósa í stjórn. Stjórnina skipa sjö konur. Ein er tilnefnd af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til eins árs í senn. Sex eru kosnar til tveggja ára í senn og þannig að á víxl ganga þrjár konur úr stjórn á hverjum aðalfundi.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum
Á aðalfundi skulu enn fremur tilnefndir tveir skoðunarmenn reikninga, til eins árs í senn.
Stjórnin skal á hverjum aðalfundi gefa skýrslu um starf KFUK í Vindáshlíð á liðnu ári og jafnframt leggja fram endurskoðaða rekstrar- og efnahagsreikninga til samþykktar.

Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að ekki verði gerð krafa um að stjórnarmenn séu eingöngu konur heldur séu konur og karlar kjörgengir í stjórn. Hljóðar ákvæðið svona eftir breytinguna, feitletruðu hlutarni sína helstu breytingar:

5. gr.
Aðalfundur skal haldinn fyrir 15. apríl ár hvert og til hans boðað með minnst viku fyrirvara.
Atkvæðisrétt hafa félagar í KFUM og KFUK á Íslandi sem greitt hafa félagsgjöld.
Á aðalfundi skal kjósa í stjórn. Stjórnina skipa sjö einstaklingar. Einn er tilnefndur af stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til eins árs í senn. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn og þannig að á víxl gangi þrír einstaklingar úr stjórn á hverjum aðalfundi.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum
Á aðalfundi skulu enn fremur tilnefndir tveir skoðunarmenn reikninga, til eins árs í senn.
Stjórnin skal á hverjum aðalfundi gefa skýrslu um starf KFUK í Vindáshlíð á liðnu ári og jafnframt leggja fram endurskoðaða rekstrar- og efnahagsreikninga til samþykktar.

Í dag hljómar 6. gr. svona:
6. gr.
Eigi síðar en mánuði fyrir hvern aðalfund, skipar stjórn Sumarstarfsins tveggja kvenna kjörstjórn. Skal hún vera utan stjórnar. Hlutverk kjörstjórnarinnar er að taka á móti tillögum og setja upp kjörlista með allt að tíu nöfnum. Kjörgengar eru þær einar, sem eru félagar í KFUM og KFUK á Íslandi. Tillögur um konur á kjörlista skulu berast kjörstjórn eigi síðar en tíu dögum fyrir aðalfund. Ef engar tillögur berast velur kjörstjórn sjálf konur á listann.

Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að ekki verði gerð krafa um að kjörstjórn verði eingöngu skipuð konum svo og að kjörstjórn geti sett upp lista með bæði konum og körlum. Jafnframt er skerpt á því að eingöngu fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi hafi kjörgengi. Hljóðar ákvæðið svona eftir breytinguna, feitletruðu hlutarni sína helstu breytingar:

6. gr.
Eigi síðar en mánuði fyrir hvern aðalfund, skipar stjórn Sumarstarfsins tveggja einstaklinga kjörstjórn. Skal hún vera utan stjórnar. Hlutverk kjörstjórnarinnar er að taka á móti tillögum og setja upp kjörlista með allt að tíu nöfnum. Kjörgengir eru fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi. Tillögur um einstaklinga á kjörlista skulu berast kjörstjórn eigi síðar en tíu dögum fyrir aðalfund. Ef engar tillögur berast velur kjörstjórn sjálf einstaklinga á listann.

Stutt greinargerð/skýringu á breytingartillögunni.
Með breytingunni er opnað fyrir aukinni þátttöku karla í ábyrgðarstöðum innan félagsins, þá sérstaklega innan Sumarstarfs KFUK í Vindáshlíð
Bæði konur og karlar hafa margvíslega hæfileika sem koma að gagni í starfi Vindáshlíða. Stjórn starfsgreinarinnar þykir það tímaskekkja að helmingur félagsmanna KFUM og KFUK hafi ekki möguleika til þess að bjóða sig fram í trúnaðarstöður innan starfsgreinarinnar. Þó aðalmarkhópur sumarstarfsins séu stúlkur er rétt að hafa í huga að það, útaf fyrir sig ætti ekki að útiloka aðkomu karla að stjórnun sumarbúðanna.
Í ljósi framangreinds og þeirrar umræðu sem í samfélaginu og innan félagsins hefur verið um nokkurt skeið að auka jafna þátttöku kynjanna í stjórnum og stjórnunarstöðum leggur stjórnin til framangreinda lagabreytingu.

Gildistaka skv. 10. gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þarf 2/3 fundarmanna til að samþykkja lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn sumarstarfsins skriflega eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund og lagðar fyrir stjórnarfund, næstan á undan aðalfundi. Jafnframt skulu þær liggja frammi í Aðalstöðvum KFUM og KFUK á Íslandi. Lagabreytingar öðlast því aðeins gildi að stjórn KFUM og KFUK á Íslandi staðfesti þær.
Lagt fyrir stjórn 29. janúar 2018