Fréttir frá Vatnaskógi

Dagurinn í gær gekk vonum framar, reyndar hefur knattspyrnumótið farið hægt af stað, en óhætt að segja að aðrir dagskrárliðir hafi gengið frábærlega. Vatnið var gífurlega vinsælt og veðrið lék við okkur. Myndirnar tala sínu máli.

Í dag hafa skýin mætt til að horfa á okkur hlaupa um og af þeim sökum verður boðið upp á dagskrá í íþróttahúsinu og ögn meiri áhersla lögð á smíðaverkstæðið. Bátarnir verða samt opnir áfram, boðið verður upp á fjölbreytta útidagskrá sem tekur tillit til bleytunnar og óhætt að lofa góðum degi.

Í nótt lét lúsmýið á sér kræla. Nokkrir drengir fengu bit en þó eru bitin færri og ekki jafnútbreidd og fyrr í sumar. Þetta er hluti af náttúrunni og lítið hægt að gera. Þó reynum við að vera með fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og kostur er. Ef drengirnir eru sérstaklega viðkvæmir þá hvetjum við þá til að klæðast langermabolum og síðum buxum.

Til að bregðast við bitum og róa óþægilegan kláða notum við aloe vera krem, Afterbite stift, ásamt ofnæmislyfjunum Histasín/Lóritín og sterakremi eins og Mildison. Vinsamlegast láta vita ef börnin mega ekki taka þessi lyf. Kláðinn virðist oftast líða hjá eftir nokkra daga og bitin gróa. Ef drengirnir verða enn þá illa haldnir af bitum við heimkomu mælum við með því að leitað sé ráða læknis.

Myndir úr flokknum verða á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683372473873.

Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.