Jól í skókassa er verkefni KFUM & KFUK sem flestu félagsfólki er kunnugt. Nú fer að nálgast sá tími þegar við leggjum vinnu í að fara yfir kassa, pakka á bretti og í gám og síðan að senda til Úkraínu um miðjan nóvember.

Á síðasta ári fengum við vel á sjötta þúsund kassa. Það er mikil vinna við að fara yfir þann fjölda kassa svo vel sé.

Í ár munum við hefja þessa vinnu sunnudaginn 6.nóvember og dagana þar á eftir munum við vinna við kassana seinni part dags og fram á kvöld. Lokadagurinn til að skila kössum og til að fara yfir alla þá kassa sem berast er laugardagurinn 12.nóvember.

Okkur vantar fleiri sjálfboðaliða, 18 ára og eldri til að vinna að fjölbreyttum verkum. Stemmingin er engu lík í stórum hópi áhugasamra sjálfboðaliða sem vinna að þessu einstaklega gefandi verkefni.

Fyrir þau ykkar sem hefðuð gleði af því að hjálpa okkur og hafið ekki komið að því áður bjóðum við upp á stutt námskeið, miðvikudaginn 26.október klukkan 17:30 í húsi félagsins við Holtaveg. Þar förum við yfir hvað felst í því að starfa við verkefnið, sögu þess og hugsjón.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku í námskeiði með því að hafa samband við Björgvin Þórðarson í síma 861 4481 eða með tölvupósti, bjorgvin@korrekt.is

Við biðjum fólk jafnframt um að skrá sig sem sjálfboðaliða til sama aðila því það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa yfirsýn yfir fjölda einstaklinga starfandi hverju sinni.