Á morgunn heldur Unnar Freyr Erlendsson á vegum KFUM og KFUK á Íslandi til Prag í Tékklandi sem sjálfboðaliði. Fljótlega eftir komuna til Prag hefur hann formlega störf á skrifstofu Evrópusambands KFUM, við undirbúning Evrópumóts KFUM í Prag  sem verður haldið þar í borg sumarið 2013.

Vinnan stendur í eitt ár, og mun Unnar starfa í vinnuteymi í Prag með öðrum sjálfboðaliðum og starfsfólki. Unnar sótti um stöðuna í samvinnu við alþjóðaráð KFUM og KFUK á Íslandi.

Unnar hefur starfað sem leiðtogi í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK á Íslandi, setið í stjórn KSS og starfað sem tæknimaður fyrir félagið.

KFUM og KFUK á Íslandi gerist með ferð Unnars í fyrsta sinn sendisamtök hjá EVS (European Voluntary Service) en styrkur fékkst hjá Evrópu unga fólksins til að Unnar gæti verið við störf í Prag þetta ár. Því fellur enginn kostnaður á KFUM og KFUK á Íslandi né KFUM í Prag vegna vinnu hans og veru í Prag.

Von er til þess að ferð Unnars verði lærdómsrík og gefandi. Það er dýrmætt að hann fái að starfa fyrir KFUM-félag í erlendu landi þar sem hann bæði leggur sitt af mörkum, og öðlast án efa reynslu sem getur nýst KFUM og KFUK á Íslandi.

KFUM og KFUK á Íslandi óskar Unnari góðs gengis og Guðs blessunar.