Í gær, sunnudaginn 19. ágúst, fór fram vígsla nýrrar byggingar í sumarbúðum KFUM og KFUK á Hólavatni í Eyjafirði. Undanfarin ár hefur verið unnið hörðum höndum við að reisa glæsilega viðbót við húsið þar, sem bætir aðstöðu barna sem þar dveljast á sumrin, og starfmanna verulega.

Vígsluathöfnin sjálf fór fram utandyra í blíðskaparveðri, en talið er að um 170 manns hafi verið viðstaddir hana. Fleiri bættust svo í hópinn á hinni árlegu kaffisölu sem fór fram eftir athöfnina, en talið er að alls hafi allt að 300 manns heimsótt Hólavatn í gær.

Séra Sigfús Ingvason sá formlega um að vígja nýbygginguna og fór með blessun. Formaður bygginganefndar nýbyggingarinnar, Guðmundur Ómar Guðmundsson talaði til viðstaddra og sagði frá helstu atriðum í sögu verksins, sem hófst árið 2008. Fjöldi sjálfboðaliða hefur lagst á eitt við bygginguna og gefið óteljandi vinnustundir í þágu Hólavatns, með ýmsum ólíkum hætti.

Auður Pálsdóttir, formaður KFUM og KFUK á Íslandi tók einnig til máls og afhenti Hólvetningum gjöf frá félaginu. Tómas Torfason, fyrrverandi formaður KFUM og KFUK á Íslandi og Salvar Geir Guðgeirsson stjórnarmaður í stjórn Skógarmanna tóku einnig til máls og afhentu Hólvetningum gjafir. Anna Elísa Hreiðarsdóttir formaður stjórnar Hólavatns og Jóhann Þorsteinsson, stjórnarmaður ávörpuðu einnig viðstadda.

Fjöldasöngur var loks við lagið „Hólavatn hjartakæra“ með undirleik Hreins Pálssonar, starfsmanns Hólavatns, og tóku gestir vel undir.

Ljúffengt kaffihlaðborð beið svo gesta vígsluathafnarinnar og fleiri velunnara Hólavatns, og var dagurinn afar ánægjulegur og skemmtilegur.

Starfsfólk KFUM og KFUK á Íslandi óskar Hólvetningum hjartanlega til hamingju með áfangann og óskar þeim Guðs blessunar í öllu starfi í framtíðinni.