Hér var vakið á hefðbundnum tíma í morgun, eða klukkan níu. Stelpurnar vöknuðu flestar hressar og kátar og mættu í morgunmat, fánahyllingu og biblíulestur sem fjallaði um við eigum að elska hvert annað. Svo var brennókeppni og húllahringja keppni og setustofusamvera fyrir þær sem vildu sitja og spjalla, hnýta vinabönd, spila eða gera annað skemmtilegt. Í hádegismatinn var svo hakk og spagettí, ásamt heitu brauði með pepperoni og/eða osti sem var mjög vinsælt.
Eftir hádegi var slegið upp Vindáshlíð Next Top Model þar sem herbergin vinna saman og fá svarta ruslapoka, pappír og annað skemmtilegt og eiga að búa til búninga úr því á tvö módel úr hverju herbergi. Þetta þykir stelpunum flestum mjög skemmtilegt og þær vinna saman við að útbúa módelin, greiða þeim og hanna svört plastpoka-föt. Útkoman var stórskemmtileg og ótrúlegt hvað leynast miklir hæfileikar í þessum flotta hóp sem hér er. Við tókum að sjálfsögðu nokkrar myndir af stelpunum og vonumst til að geta sett einhverjar þeirra á netið mjög fljótlega.
Kaffitíminn er alltaf vinsæll og skemmtilegur matartími og í dag fengu stelpurnar gulrótarköku og heilsusmákökur. Eftir kaffitímann var svo brennókeppni og frjáls tími fram að kvöldmat.
Í kvöldmatartímanum var upplifunarmatartími. Þá fengu stelpurnar að upplifa hvernig mat og öðrum lífsgæðum er skipt misjafnlega á milli fólks í heiminum. Eftir þann matartíma var haldin annar „venjulegur“ matartími og boðið uppá pítu með skinku og grænmeti. Fljótlega eftir þennan tvöfalda matartíma var svo haldið í ævintýraleik sem vakti mikla lukku hjá hópnum.
Ævintýraleikurinn tók lengri tíma en hefðbundin kvöldvaka en við létum það auðvitað ekkert stoppa okkur í því að halda áfram hefðbundinni dagskrá eftir leikinn. Þá var öllum boðið í kvöldkaffi og rólega stund með hugleiðingu um að vera vinir og að eiga góðan vin.
Það voru svo kátar og hressar stúlkur sem fóru frekar seint að sofa eftir enn einn ævintýralegan og viðburðarríkan dag hér í Vindáshlíð.
Af gefnu tilefni vil ég minna á símatíma forstöðukonu sem er á milli 11:30 og 12:00 á daginn, og einnig vil ég benda fólki á að skoða myndirnar sem settar eru inn hér á myndasíðuna okkar. Myndir segja oft meira en þúsund orð og gefa ykkur foreldrum og öðrum áhugasömum góða hugmynd um skemmtilega stemningu hér í ævintýraflokknum.
Með Hlíðarkveðju, Jóhanna K.