Dagurinn byrjaði vel hjá okkur. Allar stelpurnar fengu að sofa til hálf tíu en þó voru nokkrar sem vöknuðu fyrr og höfðu það huggulegt í setustofunni fram að morgunmat.
Dagskráin fyrir hádegi var með hefðbundnu sniði, morgunmatur, fánahylling, biblíulestur og svo íþrótta og brennókeppnir. Stelpurnar voru duglegar að taka þátt og skemmtu sér vel.
Eftir hádegi var farið í upplifunarleik sem stundum er nefndur hermannaleikur. Þá fá stelpurnar að kynnast því að það hafa ekki allir það jafn gott í heiminum og þær fá að upplifa að vera á flótta. Leikurinn fór mjög vel fram og þær sem tóku þátt skemmtu sér mjög vel. Leikurinn var útskýrður vel fyrir þeim í byrjun og þær sem ekki vildu vera með fengu að vera inni á meðan og það voru nokkrar sem völdu það. Þær höfðu það huggulegt í setustofunni með spilum og vinaböndum á meðan að foringjar og stelpur léku sér í hermannaleiknum.
Í kaffitímann var boðið uppá kanillengjur og kökusneið. Eftir kaffi var hefðbundin dagskrá ásamt því að stífar æfingar hófust fyrir hæfileikakvöldvökuna. Þær sem vildu syngja, dansa eða leika eða sýna aðra hæfileika skráðu sig til leiks og æfðu sín atriði ásamt því að taka þátt í íþrótta og brennókeppnum.
Kvöldvakan var svo frábær skemmtun með fullt af hæfileikaríkum stelpum sem að sýndu sig og sáu aðra og það var mikið klappað og fagnað með þessum flottu stelpum sem eru hér. Greinilegt að við erum með mjög hæfileikaríkan hóp hjá okkur.
Kvöldkaffi og hugleiðing voru á sínum stað og gekk allt mjög vel. Það voru svo þreyttar og sælar stúlkur sem að fóru að sofa um hálf tólf leytið, enda langur og skemmtilegur dagur búinn og annar skemmtilegur dagur framundan
Hlíðarkveðjur, Jóhanna K. Steinsdóttir.