Það var hress hópur stúlkna sem mætti í Vindáshlíð í ævintýraflokk í gær. Við komuna var hefðbundin dagskrá, farið yfir reglur á staðnum og öllum raðað í herbergi. Við pössuðum að sjálfsögðu að allar vinkonur yrðu saman og allir fóru sáttir í herbergin að koma sér fyrir. Í hádegismatinn fengu þær grjónagraut og borðuðu mjög vel af honum.
Eftir hádegið var frjáls tími í smá stund og svo var Ratleikur og þar keppa herbergin sín á milli um bestu svörin við ýmsum skemmtilegum þrautum.
Í kaffitímann fengu þær svo bananabrauð og súkkulaðiköku og borðuðu þær flestar vel af því. Eftir kaffið byrjaði svo brennókeppni milli herbergja og íþróttakeppnin. Þær voru duglegar að taka þátt í því sem er í boði og stóðu sig vel. Í kvöldmatinn var svo boðið uppá kjúklingaleggi og sætar kartöflur og flest allar borðuðu mjög vel.
Kvöldvakan var haldin í íþróttahúsinu og samanstóð af allskyns leikjum og sprelli til að hrista hópinn enn betur saman. Eftir kvöldvöku voru ávextir og súkkulaðikex í kaffitímann og svo var hlustað á hugleiðingu. Eftir það fengu stelpurnar smá stund til að bursta tennur og gera sig tilbúnar fyrir nóttina en áður en þær gátu farið að sofa þurftu þær að finna sínar bænakonur. Bænakonuleitin er skemmtilegur leikur sem herbergin taka þátt í saman og svo var mikil gleði þegar þær fundu sínar bænakonur og fengu að fara með hana inn í herbergi með sér. Eftir að bænakonan var búin að spjalla við stelpurnar sínar og biðja með þeim og bjóða góða nótt, gerðist hið óvænta. Náttfatapartý fór í gang með miklum látum, söng og gleði. Stelpurnar voru ótrúlega hressar og kátar þrátt fyrir langan dag og tóku mikinn þátt í náttfatapartýinu. Því lauk svo á grænum frostpinnum og sögunni um hana Júlíu og óskirnar tíu. (úr bókinni Við Guð erum vinir)
Þegar náttfatapartýinu lauk var klukkan orðin eitt eftir miðnætti og það voru því þreyttar en alsælar stelpur sem fóru að sofa. Það gekk líka ótrúlega vel að fá þögn og ró í hópinn og allar sofnuðu þær hratt og vel, sælar og glaðar.

Þetta er rosalega flottur hópur af stelpum sem við erum með hérna og spennandi dagar framundan. Ég mun reyna af fremsta megni að setja inn fréttir á hverjum degi og leyfa ykkur að fylgjast með starfinu hjá okkur. Einni munu koma myndir eins fljótt og hægt er.

Bestu kveðjur úr Vindáshlíð, Jóhanna K. Steinsdóttir forstöðukona.