Eftir langan og viðburðaríkan dag í gær, fengu stúlkurnar að sofa út í morgun. Um hálfellefu voru þær síðustu drifnar í morgunverð. Veðrið var gott og einhverjar fóru út að leika sér. Eftir pastarétt í hádeginu, beið okkar rúta sem fór með okkur í sundlaugina á Akranesi og var gott að fá að þvo hárið og ærslast í lauginni. Þar átti sér stað óformleg sundkeppni.
Við heimkomuna aftur í Ölver beið girnilegt bakkelsi í drekkutímanum. Þá var haldin hæfileikakeppni Unglingaflokks Ölvers og komu stúlkurnar fram með fimm verulega metnaðarfull atriði sem engin leið var að skera úr um hvert þeirra væri best. Það er svo dásamlegt þegar þær leggja allt sitt í atriðin. Eftir keppnina voru fleiri íþróttakeppnir, risa brennóleikur og síðan frjáls tími í útileik, auk þess sem stúlkurnar í Skógarveri æfðu atriði fyrir kvöldvökuna.
Í kvöldmatinn fengu þær skyr og smurbrauð. Það er gaman að sjá stelpur um alla landareignina eftir matinn, það gefur staðnum svo skemmtilegan blæ og gaman að heyra hlátrasköllin úr öllum áttum.
Kvöldvakan var skemmtileg með vel æfðum atriðum, sögu, hugleiðingu og miklum söng.
Eftir kvöldávextina höfðu stúlkurnar sig til fyrir nóttina, bænakonur fóru inn á herbergi með þeim og fljótlega komst ró á í húsinu.
Með kærri Ölverskveðju,
Ása Björk, forstöðukona.