Viðburðaríkur dagur, nóg af skemmtilegum uppákomum og góður andi á meðal stelpnanna. Eftir morgunmat og fánahyllingu var Biblíulestur, sem að þessu sinni fjallaði um hugrekki og það að standa með þeim sem minna mega sín þrátt fyrir áhættu á að einhverjum finnist það ekki nógu svalt. Einnig ræddum við það að stundum á unglingsárunum upplifum við okkur sem miðdepil alheimsins og höldum að allir fylgist með öllu sem við gerum og öllu sem við klæðumst, þegar jafnaldrar okkar eru einnig í sömu hugleiðingunum.
Síðasti hluti brennókeppninnar fór vel fram og hádegismatnum var vel tekið; kjúklingi í sveppasósu, grjónum og grænmeti. Þá tók hárgreiðslu- og förðunarkeppnin við og það voru stórglæsilegar stúlkur sem spókuðu sig um húsið. Eftir drekkutímann föndruðum við ótrúlega fallegar rósir. Einnig var íþróttakeppni og leikrit æfð fyrir kvöldvökuna. Kvöldvakan var mjög fjörug, hugleiðingin fjallaði um vináttuna og gildi traustsins, en eftir hana komu góðir gestir, fyrrum starfsstúlkur og endaði kvöldið með náttfatapartýi.
Þessar stúlkur bera sköpun Guðs glöggt vitni og það er dýrmætt að fá að kynnast þeim.
Ása Björk, forstöðukona.