Ölversstúlkur í óvissuferð
Það voru glaðar stúlkur sem vöknuðu á þessum þurrasta degi flokksins hingað til. Eftir morgunverð og fánahyllingu var Biblíulestur, þar sem textinn í Matteusarguðspjalli 25. kafla um hjálpsemi og náungakærleik, var tekinn fyrir. Í tenglsum við það að kunna að fletta upp í Biblíunni, flettum við síðan upp á og lásum texta sem ortir hafa verið sálmar upp úr. Þeir voru að sjálfsögðu sungnir. Er ég leitaði vinar, Er ég horf’ á himininn, Drottinn er minn hirðir. Síðan var farið í brennubolta í íþróttahúsinu.
Eftir yndislegan hádegismat; pítum með hakki, grænmeti og sósu, fórum við í það sem stúlkurnar héldu að væri sundferð. Hins vegar fórum við fyrst í heimsókn í unglingaflokk í Vatnaskógi. Lékum við annars konar skotbolta við krakkana þar og fórum síðan niður að vatni. Stelpurnar létu sólarleysið ekkert á sig fá og fóru margar út í vatnið eftir jafnvægisleik og síðan fengu nokkrar að láta bát draga sig á svokallaðri tuðru, sem er nokkurs konar fljótandi skutla.
Bakkelsið sem við komum með úr Ölveri var kærkomið í matsal Vatnaskógar eftir volkið og eftir það fórum við í sundlaugina að Hlöðum. Við heimkomu fóru stelpurnar í Hamraveri að æfa leikrit og leiki fyrir kvöldvökuna og aðrar áttu frjálsan tíma.
Eftir dýrindis grjónagraut í kvöldverð, var mikið fjör á kvöldvökunni og milli atriða var mikið sungið og hlegið. Loks komst á ró þegar bænakonur voru inni á herbergjum stúlknanna og undirbjuggu þær fyrir nóttina. Eftir það sungu bænakonur / foringjar lofgjörðarsöngva frammi á gangi.
Við bjóðum góða nótt úr stillunni hér undir Blákolli um leið og við þökkum Drottni fyrir enn einn góðan dag með þessum einstöku stúlkum og frábæra starfsfólki.
Ása Björk, forstöðukona.