Það er óhætt að segja að aðlögunarhæfni stúknanna sé mjög mikil. Í dag var næstum ekkert á sínum stað á dagskránni og því erfitt fyrir stúlkurnar að giska á hvað beið þeirra. Við hófum þó daginn á hafragraut, bláum hafragraut vegna möguleikans á að handboltalandsliðið okkar keppi í bláum búningum á Ólympíuleikunum í dag. Að fánahyllingu lokinni var boðið upp á að horfa á leikinn, sem var gríðarlega spennandi og einnig að gera origami með Lenu sem er sjálfboðaliði hjá okkur. Sumar stúlkurar tóku þátt í hvoru tveggja. um hádegið var síðan ,,kvöldmatur“ sem samanstóð af súrmjólk með ferskum ávöxtum í og smurbrauði.
eftir hádegið settum við upp brjóstsykursverksmiðju, þar sem stelpurnar voru með í brjóstsykursgerð í smærri hópum. Þeim fannst það ekki leiðinlegt. Eftir fyrsta hluta brennókeppninnar var komið að kvöldmat um kaffitímann og voru kjötbollurnar ásamt kartöflustöppu, brúnni sósu og grænmeti sérlega vinsælar. Frjáls tími og leikir, þá drekkutími með heimabökuðum bollum, kökum og heitu súkkulaði.
Vaninn er að hafa Biblíulestur að morgni hvers dags, en á þessum rugludegi var sú stund í stað kvöldvöku. Ræddum við um heiðarleikann og nauðsyn þess að bera virðingu hver fyrir annarri og fólkinu sem við umgöngumst. Lofsöngskvöld kom okkur í góða ró fyrir bænastund á hverju herbergi fyrir svefninn. Langur og viðburðaríkur dagur er að kveldi kominn. Guð gefi okkur öllum goða nótt.
Ása Björk forstöðukona.