Komið þið heil og sæl!

Dagurinn í dag hefur gengið vel, við erum ánægð með rigninguna sem við höfum fengið undanfarna daga.

Dagurinn var mjög hefðbundinn, vakning kl. 9, morgunmatur, fánahylling og biblíulestur. Á biblíulestri héldum við áfram að læra um góð verk og að vera góðar manneskjur því það getur auðveldað manni tilveruna alveg ótrúlega mikið. Þær sögðust allar hafa gert góðverk í gær og við höldum áfram með það verkefni á morgun ásamt því að við byrjum leynivinaleik í fyrramálið. Brennóinn var svo á sínum stað ásamt hádegismatnum.

Eftir hádegismatinn var Ölver’s Next Top Model og þær skemmtu sér mjög vel og það komu margar flottar og skemmtilegar hárgreiðslur fram. Eftir kaffi var íþrottakeppni, heiti potturinn og leikherbergi en Fuglaver og Hlíðarver æfðu atriði fyrir kvöldvökuna.

Þær borðuðu mjög vel í kvöldmatnum og voru mjög spenntar fyrir kvöldvökunni. Hún gekk mjög vel og atriðin voru öll mjög skemmtileg. Eftir ávexti og tannburstun þá fóru bænakonurnar inn á herbergin og stoppuðu í smástund en báðu þær svo allar um að koma upp í sal því þær þyrftu að sýna þeim svolítið merkilegt. Þá var blásið til náttfatapartýs sem er enn í fullum gangi. Þær eru búnar að dansa frá sér allt vit og eru núna á ljónaveiðum. Þær fá svo íspinna rétt áður en þær fara að sofa. Við vonum að þær muni verða mjög þreyttar og sofni fljótt 🙂

Við sendum bestu kveðjur heim 🙂
Þóra Jenny, forstöðukona.