Þriðji dagurinn okkar í 6. flokki Vindáshlíðar hefur verið skemmtilegur og viðburðaríkur. Sólskinið sem vermdi okkur fyrstu tvo dagana hefur að vísu vantað, og nokkrir regndropar hafa látið sjá sig, en það hefur þó ekki spillt fjörinu.

Stelpurnar voru komnar á stjá um kl.9 í morgun (miðvikudag) og gerðu morgunmatnum góð skil. Afar góð matarlyst er í hópnum, og gaman er að sjá hvað margar stelpur taka vel til matar síns. Að fánahyllingu lokinni var biblíulestur þar sem fjallað var um það hve mikilvæg fyrirgefning er. Stelpurnar sýndu mikinn dugnað við að fletta upp biblíuversum og sungu hástöfum “Hlíðin með grænum hjöllum” ásamt fleiri fallegum Vindáshlíðarlögum.

Sippkeppni tók svo við, og brennókeppnin æsispennandi hélt áfram fram að hádegi. Í hádegismat voru dýrindis-fiskibollur, hrísgrjón og meðlæti.

Þegar stelpurnar höfðu rétt lokið við að borða, var blásið til brunaæfingar. Farið var yfir það hvernig allar í Vindáshlíð skulu bregðast við ef eldur kemur upp, og brunabjallan var sett í gang. Stelpurnar voru mjög snöggar að komast út úr húsi með aðstoð starfsfólksins.

Þá næst var útivistardagskrá dagsins keyrð í gang, og nokkrir foringjar fóru með stelpunum niður í réttir í nágrenni Vindáshlíðar þar sem farið var í leiki, m.a. “Smalaleik” sem var vinsæll. Það rigndi meðan hópurinn gekk heim, með þeim afleiðingum að föt flestra voru rennblaut við komuna.  Þá var notalegt að skunda inn í matsal í kaffitíma og gæða sér á ljúffengum rúsínubollum með bleikum glassúr og sem eldhússtarfsfólkið hafði reitt fram.

Brennókeppnin heldur áfram fram að kvöldmat, og gaman er að sjá hve kappsfullar margar stelpurnar eru. Einnig er í boði að gera vinabönd og vera í rólegheitum inni, hlusta á tónlist og fleira.

Á döfinni í kvöld er kvöldvaka þar sem stelpur úr þremur herbergjum munu flytja skemmtiatriði, kvöldkaffi, og svo mun Ásta foringi flytja hugleiðingu um Miskunnsama Samverjann í setustofunni.

Það er virkilega gaman að verja tíma með öllum yndislegu stelpunum í 6.flokki, sem standa sig svo vel.

Myndir af 2.degi eru komnar inn á heimasíðuna, og er að finna á slóðinni: http://www.kfum.is/sumarstarf/vindashlid/vindashlid-ljosmyndir/

Foreldrum er velkomið að hafa samband í símatíma alla daga flokksins, milli 11:30 og 12 í síma 566-7044.

 

Kær kveðja,

Soffía Magnúsdóttir

forstöðukona