Þriðjudagurinn 17. júlí 2012

Ró var í skála þegar foringjar vöktu drengi kl. 9. Annar dagur í Vatnaskógi er runninn upp. Í morgunmat var smurt brauð og heitt kakó. Það er gömul hefð hjá Skógarmönnum að bjóða upp á heitt kakó í morgunmat og höldum við þeirri hefð ennþá með því að bjóða upp á það annan hvern morgun. Eftir morgunmat var fánahylling en það er líka gömul hefð frá því að fyrsti flokkurinn kom hingað en þá voru Íslendingar nýlega búnir að fá fullveldi. Svo var morgunstund þar sem var sungið og svo var fræðsla. Svo fór hver hópur með sínum borðforingja að fletta upp í Nýja testamentunum sínum. Svo var frjáls tími fram að hádegismat.

Sérútbúna vatnatrampólínið var mjög vinsælt á góðum busldegi við vatnið.

Í hádegismat var salat og tortillas og tóku drengirnir vel til matar síns. Vegna veðurblíðu var áhersla á útiveru eftir hádegið. Boðið var upp á víðavangshlaup. Þá er hlaupið í kringum Eyrarvatn, eftir fallegum stíg í skóginum, yfir tvo ósa, og er þetta hlaup mjög skemmtilegt og krefjandi, um 4,5 km að lengd. En aðalfjörið eftir hádegið var við bátaskýlið. Allir bátar voru úti á vatni og fjölmargir drengir voru að vaða við bryggjuna og leika sér á sérútbúnu trampólíni sem flýtur á vatninu. Engar áhyggjur foreldrar, ef stákarnir detta af trampólíninu þá detta þeir í vatnið! Einnig hafa margir verið duglegir að veiða og hafir nokkrir strákanna náð að landa bleikju eða urriða í land.

Aflinn hefur verið góður í þessum flokki og drengirnir hafa skemmt sér vel við veiðarnar.

Í kaffinu var að venju nýbakað bakkelsi. Einnig sungum við afmælissönginn fyrir Egil Helga á 2. borði sem varð 13 ára í dag. Svo var frjáls tími aftur fram að kvöldmat. Sumir héldu áfram að vaða, aðrir fóru og léku sér í íþróttahúsinu. Einnig voru allnokkrir að smíða á efri hæð bátaskýlisins en þar er þokkaleg smíðaaðstaða.

Eldhússtelpurnar okkar héldu áfram með mexíkóskt þema í matnum og buðu uppá dýrindis súpu, með maísflögum og sýrðum rjóma, brauði og afgöngum af tortillas frá hádeginu. Eftir matartímann fóru tveir foringjar við 5 drengi í gönguferð í Kúahallardal hjá Kúahallarfossum. Allir sem vildu gátu farið með en aðeins fimm hreystimenni treysta sér til þess enda munu þeir gista undir berum himni í nótt.

Kvöldvaka byrjaði kl. 21 að venju og svo var kvöldkaffi. Við buðum upp á miðnæturdagskrá fyrir drengina eftir kvöldkaffið. Annars vegar var hægt að sprikla í íþróttahúsinu eða koma við í hreyfimyndahúsi Lindarrjóðurs í Gamla skála en þar var kvikmynd um Tinna sýnd. Dagskrá lauk um kl. hálfeitt og ró var komin í skála um kl. eitt.

Veður hefur verið mjög gott í dag. Sólríkt var fram að miðjum degi en eftir það var skýjað en bjart. Hægur vindur og mjög hlýtt, hiti 20-22°C þegar hlýjast var. Um kvöldið var líka hlýtt og skýjað og um miðnætti var 12-13°C.

Myndir frá 2. degi komnar inn. Myndir úr flokknum má sjá hér:

Kær kveðja úr Lindarrjóðri,

Salvar Geir Guðgeirsson, forstöðumaður.