Í gær hófst 6.flokkur í Vindáshlíð. Tvær rútur óku stelpunum á staðinn, en alls eru 83 hressar og kátar stelpur í Hlíðinni þessa vikuna.

Athugið að myndir úr flokknum má sjá á eftirfarandi slóð: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157630625473416/

Fljótlega eftir komuna var samverustund í matsalnum, þar sem starfsfólk kynnti sig, og farið var yfir reglur og fyrirkomulag vikunnar. Stelpunum var svo raðað í herbergi, og fengu skoðunarferð um staðinn, hver með sinni bænakonu. Svo fóru þær að koma dótinu sínu fyrir áður en blásið var til hádegisverðar.

Stelpurnar voru greinilega svangar eftir ferðalagið og tóku mjög vel til matar síns, en plokkfiskur var á boðstólnum ásamt rúgbrauði og grænmeti.

Eftir hádegismat fóru stelpurnar í ratleik um svæði Vindáshlíðar, þar sem þær þurftu að leysa ýmsar þrautir og verkefni, og kynntust um leið svæðinu.

Blíðskaparveður lék við okkur alveg frá komu, það var mjög hlýtt og sólskin, og var mikið um útiveru. Ólöf íþróttaforingi stýrði húshlaupi, og brennókeppni Vindáshlíðar fór af stað með miklu fjöri í umsjá Karítasar brennóforingja. Hoppukastala var einnig komið fyrir úti á grasflöt og naut hann mikilla vinsælda.

Í kaffitímanum var boðið upp á ljúffenga skúffuköku með bleiku smjörkremi ásamt döðlubrauði úr smiðju Ingibjargar, Önnu Bergljótar og Huldu.

Brennókeppnin hélt áfram eftir kaffi, og einnig var vinsælt að búa til vinabönd.

Boðið var upp á grjónagraut í kvöldmat, sem vakti mikla lukku hjá flestum. Samkvæmt venju tók kvöldvaka svo við fljótlega eftir kvöldmat, þar sem farið var í ýmsa skemmtilega leiki, s.s. stórfiskaleik, ásadans og risa-hvísluleik.

Kvöldkaffi tók svo við þar sem stelpurnar fengu sér ávexti og mjólkurkex. Í Vindáshlíð er venja að safnast saman í setustofunni í húsinu og hlusta á hugleiðingu fyrir svefninn. Bryndís foringi flutti hugleiðingu um það hve allar væru óendanlega dýrmæt sköpun Guðs.

Þar næst fóru margar stelpur að bursta tennurnar í læknum sem rennur hjá Vindáshlíð, en aðrar kusu að gera það innandyra.

Bænakonur enduðu svo þennan sólríka og yndislega dag í Vindáshlíð, hver með sínu herbergi, en stelpurnar gista í 6-8 manna herbergjum. Ró var komin á staðinn fyrir miðnætti.

 

Dagur 2

 

Í dag, þriðjudag, voru flestar stelpurnar greinilega þreyttar eftir viðburðaríkan gærdag, og sváfu flestar fram til níu, þegar Sólrún foringi sá um að vekja. Þær mættu sprækar í morgunmat, fengu sér morgunkorn og súrmjólk, og fóru svo á fánahyllingu undir stjórn Guðlaugar Maríu.

Þar næst tók við biblíulestur í kvöldvökusalnum, þar sem stelpurnar fræddust um Biblíuna, kærleika Guðs, og hve mikilvægt það er að sýna öðrum kærleika.

Brennókeppnin ásamt langstökki hélt svo áfram fram að hádegismat.

 

Í hádegismat var spaghetti og hakk. Þegar stelpurnar voru að ljúka við að borða, komu óvæntir Swing-dansarar fram í búningum og dönsuðu og voru með sprell og fjör. Þegar betur var að gáð voru þetta Anna og Hulda sem starfa í eldhúsinu þessa vikuna, og fleiri foringjar bættust svo í hópinn og dönsuðu meira við tónlist, við mikla kátínu stelpnanna.

 

Strax eftir hádegismatinn héldu stelpurnar í hressilega göngu að Brúðarslæðu. Allar fengu sólarvörn, vegna mikillar sólar. Á döfinni í dag m.a. vatnsslagur, hressileg kvöldvaka og margt fleira.

 

Við höldum áfram að skemmta okkur í Vindáshlíð og þökkum fyrir góða byrjun á flokknum.

Símatími er alla daga í flokknum milli kl.11:30 og 12, s. 566-7044.

Myndir eru væntanlegar hingað á heimasíðuna.

 

Kær kveðja,

Soffía Magnúsdóttir

Forstöðukona