Í morgun voru stúlkurnar vaktar klukkan 8:30 og morgunmatur var hálftíma síðar. Fánahylling, tiltekt og biblíulestur fylgdu í kjölfarið ásamt brennókeppni og hádegismat.

Eftir hádegismatinn fórum við í gönguferð niður að Hafnará. Stelpurnar skemmtu sér konunglega í ánni, fannst hún heldur köld en hikuðu ekki við að vaða og sumar settust meira að segja í vatnið. Við skemmtum okkur við ána í næstum því tvo tíma en það var gott að komast aðeins inn og borða kaffitíma og hvíla okkur á sólinni. Eftir kaffi var brennókeppni og íþróttakeppni. Tvö herbergi æfðu skemmtiatriði fyrir kvöldið, Lindarver og Skógarver.

Í kvöldmatinn var ávaxtasúrmjólk og þær borðuðu mjög vel af henni. Kvöldvakan var á sínum stað kl. 20 og gekk mjög vel fyrir sig. Bænakonurnar fóru inn í herbergin og byrjuðu að lesa en eftir um fimm mínútur fækkuðu þær fötum og stóðu allt í einu á náttfötunum í miðju herberginu – NÁTTFATAPARTÝ!!!! Stelpurnar skemmtu sér vel í náttfatapartýinu, þær dönsuðu, fóru í leiki og á ljónaveiðar og fengu að lokum ís og hlustuðu á sögu frá einum foringjanum á meðan þær borðuðu ísinn. Partýið var svo endað á rólegu nótunum og bænakonurnar fylgdu sínum stúlkum í herbergin þeirra. Þær lásu stutt fyrir þær, báðu kvöldbæninar og sátu svo hjá þeim stutta stund á meðan þær voru að sofna.

Takk fyrir daginn!

Þóra Jenny, forstöðukona.