Stúlkurnar sváfu til 9:30 í morgun og það var ekki ein einasta stúlka vöknuð þegar ræstirinn mætti á svæðið til að vekja. Dagurinn í dag var fjólublár og því var meðal annars fjólublár hafragrautur í boði í morgunmat.

Morgunninn leið eins og venjulega  með föstum dagskrárliðum. Eftir hádegismatinn voru Ölversleikarnir en á meðal keppnisgreina var að finna nafn á liðin, hanna búninga og fána, fiskibollukast, vatnsblöðrukast og fleiri skemmtilegar og óvenjulegar greinar. Eftir kaffitímann var svo Ölver’s got talent og þar fengum við að sjá mörg skemmtileg atriði frá stelpunum, margar sungu, ein teiknaði, nokkrar dönsuðu og við heyrðum meira að segja tvö frumsamin lög um Ölver. Keppnin var hin glæsilegasta og það verður erfitt fyrir foringjana að finna út hvernig á að velja vinningshafa.

Eftir keppnina var kvöldmatur og að honum loknum var kvöldvaka. Hún var reyndar blásin af eftir 10 mínútur vegna hermannaleiks sem heppnaðist mjög vel. Foringjarnir trylltu lýðinn og eltu stelpurnar á röndum á meðan þær leituðu að leiðum til að sigra leikinn (fá leyfi til að dvelja í bátnum okkar). Þetta var mjög gaman og stelpurnar hlupu mjög mikið! Leikurinn var svo flautaður af eftir klukkustund og þá kláruðum við kvöldvökuna, með nokkrum rólegum söngvum og hugleiðingu.

Þær fengu svo ávexti og fengu bænakonurnar sínar í heimsókn um kl. hálf ellefu.

Við sendum góðar kveðjur héðan úr Ölveri,

Þóra Jenny, forstöðukona.