Vegna tæknilegra örðuleika hefur ekki verið hægt að setja inn fréttir hingað til úr Vindáshlíð en nú er þetta komið í lag. Við biðjumst velvirðingar á því.

Mánudagurinn 2. júlí 2012
Fallegur hópur stúlkna lagði af stað frá Holtavegi í morgunsárið. Tvær fullar rútur og andrúmsloftið var fullt af tilhlökkun og spennu. Á leiðinni kynntust stelpurnar og var sagt frá náttúrunni umhverfis Vindáshlíð og nokkrum reglunum þar. Stúlkurnar settust inn í matsal og var raðað niður í herbergi og farið var yfir fleiri reglur. Það er nóg af skemmtilegum reglum í Vindáshlíð 🙂 Síðan fékk hvert herbergi kynningu á svæðinu og helstu útgönguleiðum í fylgd leiðtoga. Að því loknu var boðið upp á blómkálssúpu og nýbakað brauð í hádegismat.
Í útiveru eftir hádegismat hönnuðu stúlkurnar frammúrstefnulega kjóla úr óhefðbundnum efnivið, s.s. svörtum ruslapokum, klósettpappír, blómum ofl. Starfsfólkið var dolfallið yfir sköpunarhæfileikum stúlknanna og hönnunargáfu. Hvert herbergi hjálpaðist við að hanna einn til tvo kjóla. Þetta verkefni fékk nafnið Vindáshlíð-Design 2012. Í kaffitímanum var boðið uppá sjónvarpsköku, bananabrauð, djús og mjólk og að því loknu kepptu herbergin sín á milli í brennó og stúlkurnar tóku þátt í íþróttakeppni sem í dag var kraftakeppni. Í kvöldmatinn var hakk og spagettí og ferskt grænmeti. Við tók frjáls tími fram að æsispennandi útileik í Stratego. Stúlkurnar fóru svo beint inn í kvöldkaffi, appelsínur, epli, banana og matarkex, sem þær borðuðu með bestu lyst. Það sést að ferska loftið æsir upp matarlystina í þessum elskum og því ekki verra að hafa sex matmálstíma á dag hér í sumarbúðunum. Daginn enduðum við svo á fallegri hugleiðingu frá góðum foringja og hugljúfum kvöldsöngvum. Þær sem vildu fengu að bursta tennur í læknum fyrir sefninn en áður en farið var að sofa var ‘bænakonuleit’ þar sem hvert herbergi fékk vísbendingar sem þær notuðu til að spyrja starfslið spurninga útfrá, sem svo leiddi þær á slóð þess hver yrði bænakona herbergisins í flokknum. Það tók herbergin mis langan tíma að komast að því hver bænakonan þeirra var en allar fengu þær extra langt bænó til að kynnast henni og hver annari vel. Það var altalað meðal starfsfólks hvað stúlknahópurinn sofnaði fljótt og vel enda náðum við að þreyta þær ágætlega 🙂