Hér er allt búið að vera í rugli! Stúlkurnar fengu heitt súkkulaði og ávexti í “kvöldkaffinu” sem var á morgunverðartíma. Þá fóru þær í útiveru, sem er yfirleitt eftir hádegi. Ætlunin var að fara í réttirnar en á leiðinni var búið að koma fyrir mat og skelltu stelpurnar með foringjum sér í matarslag! Það ríkti mikil gleði yfir því og tóku um helmingur stúlkna þátt. Í kjölfarið fylgdu margar sturtuferðir og hafa margar vélar af fötum verið þvegnar fyrir stelpurnar.

Í hádeginu fengu þær kvöldmat og farið var á biblíulestur þar sem þeim var sögð sagan af Davíð og Golíat orðrétt upp úr Biblíunni, en hún kennir okkur hvernig við eigum að treysta Guði og hafa hugrekki til að gera það sem er rétt. Keppt var í limbói þar á eftir. Boðið var upp á að spila og lita en margar fóru í aparóluna sem er sívinsæl.

Eftir að hafa borðað sjónvarpsköku og bananabrauð með smjöri og osti í kaffinu var farið á kvöldvöku í Lífsgönguna. Hún gengur þannig fyrir sig að bundið er fyrir augu stúlknanna og ein og ein leggur af stað í sína lífsgöngu með því að fikra sig áfram meðfram snæri sem táknar hönd Guðs. Á leiðinni eru ýmsar hindranir og þrautir og hefur þetta reynst mörgum stúlkum mikil upplifun.

Í “hádegismat” voru heimagerðar hakkabuff með rauðkáli, gulum baunum og grænum baunum ásamt kartöflum og sósu. Þær voru því vel mettar þegar tími var kominn til að fara út í íþróttahús í leiki. Þaðan fóru þær beint upp í kirkju í kvöldguðþjónustu sem foringjarnir höfðu undirbúið. Þær hlýddu þar á leikrit sem útskýrði Faðir vorið og voru duglegar að syngja með foringjunum. Þá var einnig sögð saga Hallgrímskirkju í Vindáshlíð.

Nú var klukkan orðin margt og ekki seinna vænna en að borða morgunmat. Þær fengu því morgunkorn rétt fyrir svefninn.

Bænakonur fóru inn í hvert herbergi fyrir svefninn eins og venja er í Vindáshlíð. Margar lásu sögu og allar báðu þær með og fyrir sínum stelpum.

Nálgast má myndir úr starfinu hér:
http://www.kfum.is/sumarstarf/vindashlid/vindashlid-ljosmyndir/