Næst síðasti dagurinn hér í Ölveri gekk vel eins og hinir. Við hófum daginn að sjálfsögðu á morgunmat, fánahyllingu og Biblíulestri áður en við fórum í brennó. Í hádeginu borðuðum við bleikt skyr og pizzabrauð áður en við fórum í listahringekju. Í hringekjunni útbjuggum við grímur, bökuðum brauð, fórum í leiki og lærðum afrískan keðjusöng. Eftir kaffi fengum við svo góða gesti í heimsókn til að kenna okkur afródans, þá klæddum við okkur upp í afrísku búningana okkar og dönsuðum eins og enginn væri morgundagurinn. Dagskrá dagsins var ekki lokið því við héldum hárgreiðslukeppni áður en við fengum okkur kjúlla og franskar í kvöldmatinn. Fjallaver sá svo um að halda uppi fjörinu á kvöldvöku. Stelpurnar fóru í rúmið um 10 þar sem bænakonurnar fóru inn á herbergin og gáfu sínum stelpum Biblíuvers og lásu fyrir þær í síðasta sinn. Þetta kvöld þurfti mikið að ræða og voru allir lengi að sofna.
Morgundagurinn verður spennandi, mikið um að vera. Foringjar Ölvers munu keppa við sigurliðið í brennó, svo ætlum við í ratleik um svæðið og skella okkur í pottinn fyrir veislukvöldverð og kvöldvöku. Áætlað er að rútan komi á Holtaveginn um 20:30.
Við starfsfólkið biðjum Guð að blessa stelpurnar og hlökkum til að sjá þær næsta sumar.
Ölverskveðja
Petra, Inga Dís, Ingibjörg, Snædís, Inga Hrönn, Unnur Rún, Sólveig og Solla