Það var hress hópur stúlkna á aldrinum 7-10 ára sem lagði af stað á Hólavatn í morgunn (mánudagsmorgun) í stilltu en frekar svölu veðri. Fljótlega eftir komuna fóru allir niður að vatni og skelltu sér í bátana enda algjör stilla á vatninu og gaman að sigla. Eftir hádegismatinn lá leiðin upp í laut þar sem farið var í leiki og að því loknu var ýmislegt í boði og kom þá í ljós að í hópnum leynast áhugasamir listamenn sem máluðu myndir í gríð og erg. Spennan magnaðist eftir kaffið enda sólin farin að skína og var vatnsrennibrautardúkurinn drifinn fram og allir renndu sér nokkrar ferðir. Sumir höfðu ekki fengið nóg og fóru þá með Helgu foringja niður að vatni og prófuðu að stökkva út í vatnið. Kvöldvakan var með hefðbundnu sniði með leikjum og leikritum og í lokin var hugleiðing út frá Matt. 7.7-12. um Gullnu regluna og mikilvægi þess að koma eins fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Það voru þreyttar en glaðar stúlkur sem lögðust til hvílu og vonandi verður morgundagurinn ekki síðri. Myndir úr flokknum er að finna inn á fésbókarsíðu Hólavatns en slóðin er www.facebook.com/holavatn.