Á leið í gönguferð

Drengirnir 22 sem nú dvelja í fyrsta drengjaflokknum í Ölveri í 17 ár voru ánægðir í lok viðburðarríks dags. Við komuna í Ölver var skipt í herbergi og þess gætt í hvívetna að allir væru saman í herbergi með sínum vinum og þeir sem komu stakir röðuðust líka saman og voru fljótir að kynnast nýjum vinum.

Í hádegismatinn var boðið uppá hrært skyr og smurt brauð. Þá skiptum við upp í minni hópa og fórum í fótbolta og frjálsan tíma þar sem drengirnir nýttu sér leiksvæðið vel, fóru í stærsta hengirúm á Íslandi, aparólu, fella keilur, íþróttasalinn og skóginn. Myndir komnar inn smella hér

Í kaffitímanum voru Þóra Björg og Kata búnar að baka kanilsnúða og súkkulaðikökur sem rann vel ofan í drengina.

Eftir kaffi skiptum við hópnum í tvennt og fóru hóparnir sitt í hvoru lagi í föndur hjá Axeli sem bauð uppá íspinnaspýtuhúsbyggingar á meðan hinir drengirnir fóru í gönguferð í rúma klukkustund að stóra steini, en þangað gengum við í gegnum lúpínubreiðu og klifruðum síðan uppá stóra stein og heyrðum sögur.

Í kvöldmatinn var steiktur fiskur, tómatar, agúrkur, kartöflur og hrísgrjón ásamt sósu sem Kata gerði úr afgangnum af skyrinu sem hún bætti ananas, basil, oreganó og hvítlauk og féll það vel í kramið hjá strákunum sem hafa tekið duglega til matar síns.

Eftir kvöldmat var frjáls tími á leiksvæðinu áður en blásið var til kvöldvöku með söng, leikjum, leikritum og hugleiðingu og bæn en hugleiðing kvöldsins var útfrá dæmisögu Jesú um Týnda sonin og boðskapinn um að sama hvað gerist í lífinu, þá lækkar verðgildi okkar aldrei í augum Guðs.

Í kvöldkaffinu voru epli og bananar og lesið ævintýrið um Óskirnar tíu úr bókinni Við Guð erum vinir en það fjallar um mikilvægi þess að muna eftir þeim sem minna mega sín.

Drengirnir fóru sem fyrr segir glaðir að sofa og komu ýmis skemmtileg svör við spurningunni hvað hafi verið skemmtilegast í dag: ,,að labba innan um lúpínurnar“, ,,leikritið“, ,,að borða kanilsnúðinn“ , ,,að vera í hengirúminu“, ,,leika með frænda mínum“.

Myndirnar má sem fyrr segir finna hér.

Bestu kveðjur Guðni Már