Hefur þú náð 50 ára aldri, nýtur þess að ferðast, hitta nýtt fólk, kynnast framandi menningu, koma á nýjar slóðir og skemmta þér? Sjálfboðaliðasamtökin SEEDS munu senda tvo sjálfboðaliða til þátttöku í spennandi verkefni í Róm á Ítalíu: Utopia City.

Hvert: Róm, á Ítalíu

Hvenær: 1. júní – 1. júlí 2012

Umsóknarfrestur: Mánudagur 14. maí 2012

Þema og markmið: Verkefnið er í samvinnu við Utopia-City. Hér er á ferðinni menningar- og félagslegt tilraunaverkefni þar sem almenningi er gefið tækifæri til þátttöku í að móta umhverfi sitt. Leitast er við að virkja nærsamfélagið, reynsluna og möguleikana sem leynast innan þess. Arðsemissjónarmið eru ekki látin ráða ferðinni, heldur eru íbúar svæðisins virkjaðir og leitast við að skapa félagslega samstöðu og samkennd meðal þeirra.

Verkefni: Helstu störf sjálfboðaliðanna munu felast í garðyrkju og gróðursetningu, aðstoð við undirbúning hátíðarinnar Festa del Giardino (dagur garðsins) og markaðarins Mercatino Contadino (bændamarkaður). Lögð verður áhersla á að vekja þátttakendur til vitundar um náttúru- og umhverfisvernd.

Vinnuframlag: 20-24 stundir á viku

Aðstaða: Gist verður í íbúð með eldunaraðstöðu, aðgangi að baðherbergi og þvottavél. Ýmist í sér- eða tveggja manna herbergjum.

Tungumál: Enska er tungumál verkefnisins. Ekki er krafist færni á háu stigi.

Skilyrði til þátttöku: Umsækjandi þarf að hafa náð 50 ára aldri, vera áhugasamur um umhverfis-, félags- og menningarmál og hafa þokkalegt vald á ensku.

Kostnaður:  Verkefnið er styrkt af Life Long Learning Programme og sjá skipuleggjendur verkefnisins um allan kostnað við fæði og húsnæði.

Auk þess eru þátttakendur styrktir um 100% af útlögðum ferðakostnaði, þó að hámarki 550 evrur, sem greiðast eftir að verkefninu lýkur og kvittunum hefur verið skilað. Umsýslu- og þátttökugjald til SEEDS er 10.000,- krónur og greiðist af þeim sem valdir verða til ferðarinnar. Gjaldið fæst ekki endurgreitt.

Umsóknareyðublað má finna hér og eru áhugasamir beðnir um að fylla það út á ensku og senda til SEEDS fyrir mánudaginn 14. maí 2012.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir Valdís Gunnarsdóttir vala@seeds.is .