Nýbyggingaframkvæmdir við sumarbúðir KFUM og KFUK að Hólavatni eru nú á lokasprettinum fyrir sumarið. Á Hólavatni í Eyjafirði hófst sumarbúðastarf árið 1965 og allt fram til þessa dags hefur starfsemin farið fram í einu ríflega 200 fermetra húsi á tveimur hæðum. Í ágúst 2008 var tekin skóflustunga að nýju 210 fermetra húsi og nú tæpum fjórum árum seinna er draumurinn að verða að veruleika og í sumar munu börnin við Hólavatn fá að njóta þess að dvelja í nýjum herbergjum og eldri svefnaðstöðu hefur verið breytt í tómstundarými með borðtennisborði, fótboltaspili og fönduraðstöðu.
Hús þetta er Guðs gjöf og í mörg ár höfðu Hólvetningar legið á bæn og vonað að sá dagur kæmi að hægt yrði að bjóða börnunum enn betri húsakost og aðstöðu. Fjölmargir sjálfboðaliðar, já fleiri hundruðir sjálfboðaliða, hafa átt þátt í því að láta þennan draum rætast. Fjölmargir hafa gefið fjármuni til byggingarinnar, Lionsklúbbar, kvenfélög, söfnuðir, fyrirtæki, sveitarfélög, ríki og einstaklingar hafa lagt fram mikla fjármuni en það hefur reynst nauðsynlegur stuðningur. Þá er ómetanlegt það mikla vinnuframlag sem tiltölulega fámennur hópur sjálfboðaliða hefur lagt á sig við byggingaframkvæmdirnar og eru launaðir iðnaðarmenn í miklum minnihluta við bygginguna en þessi staðreynd er klárlega stærsti einstaki liðurinn í því að Hólvetningum er að takast að ljúka við þennan mikla og stóra áfanga á ekki lengri tíma.
Sem dæmi má nefna að kvenfélög og aðrir velunnarar í Eyjafirði hafa tekið höndum saman við að fjármagna kaup á nýjum dýnum fyrir þau 34 rúm sem verða í nýbyggingunni og vantar nú aðeins um 150 þúsund krónur uppá svo að markmiðið náist en heildarkostnaður er nærri ein milljón króna.
Þá er í gangi áheitasöfnun annað árið í röð en fyrirkomulag hennar er með þeim hætti að vinir Hólavatns geta lagt fram upphæð að eigin vali í áheit fyrir hvert það barn sem dvelur við Hólavatn í sumar. Ekki er óalgengt að einstaklingar leggi fram 30 kr. á hvert barn í áheit og er sú upphæð margfölduð í lok sumars með fjölda þeirra barna sem dvelja í flokkum sumarsins. Gert er ráð fyrir um 200 börnum í sumar og nú þegar hafa safnast um 2.000 kr í áheit sem gerir þá vonandi um 400.000 kr í nýbyggingarsjóð í lok sumars. Enn er hægt að taka þátt með því að fara inn á áheitasíðuna „Byggjum upp Hólavatn“ á Facebook eða með því að senda áheit í tölvupósti á johann(@) kfum.is.
Skráning fyrir sumarið gengur vel og boðið verður upp á níu mismunandi flokka og er nokkuð fjölbreytt úrval svo að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Fyrir þá sem vilja skoða myndir frá framkæmdum síðustu þriggja ára má benda á myndaalbúm sem aðgengilegt er með því að smella hér.