Laugardaginn 7. apríl komu saman í félagsheimili KFUM og KFUK á Akureyri tæplega 50 manna hópur fólks sem átti það sameiginlegt að hafa tekið virkan þátt í unglingastarfi KFUM og KFUK á Akureyri á árunum 1985-1997 og jafnvel lengur. Mikil gleði ríkti í hópnum og var gaman að rifja upp gamla tíma, dusta rykið af gömlum skemmtiatriðum, vídeóupptökum, hljómsveitum og fleiri minningum um góðar og dýrmætar stundir sem við áttum saman í starfi félagsins á árum áður. Það var stjórn KFUM og KFUK á Akureyri sem átti heiðurinn að undirbúningi og framkvæmd kvöldsins og hófst dagskráin á því að Hanna Þórey Guðmundsdóttir flutti stutta hugvekju. Að henni lokinni var boðið uppá dýrindis lambakjöt og meðlæti og svo komu skemmtiatriði kvöldsins hvert á eftir öðru og í lok kvölds sat fólk svo og spjallaði og fletti í gömlum myndaalbúmum. Það var ánægjulegt að upplifa samhljóm og vináttu sem enn ríkir meðal hópsins og eflaust voru einhverjir með strengi í hláturvöðvum eftir frábæra kvöldstund.

Hægt er að sjá myndir af samverunni á Facebooksvæði KFUM og KFUK á Íslandi.