Um nýliðna helgi fór fram leiðtoganámskeið í Vatnaskógi fyrir leiðtoga í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK. Þátttaka og stemmning var góð, og mikill snjór á svæðinu.

Í Vatnaskógi um helgina var rætt um hvað felst í að vera leiðtogi alla ævina, farið í fjöruga leiki, fjallað um áfallaáætlanir, borðaðar kökur, haldinn fyrirlestur um starfsemi KFUM og KFUK, spiluð Mafía, rætt um æskulýðsstarfið framundan, hlegið, hafðar bænastundir, rætt um aðkomu KFUM og KFUK á Íslandi að heimsáskorun KFUM og síðast en ekki síst talað um valdeflingu ungs fólks.

Á svæðinu voru 44 leiðtogar í starfi KFUM og KFUK á Íslandi í Vatnaskógi ásamt Romulo Dantas frá Heimssambandi KFUM. Romulo ber ábyrgð á og stýrir verkefnum Heimssambandsins á sviði valdeflingar (e. empowerment) ungs fólks. Það er óhætt að segja að ferskleikinn, gleðin og vináttan hafi svifið yfir vötnum í Skóginum þegar sjálfboðaliðar í æskulýðsstarfinu á öllum aldri ræddu um starfið sitt, kynntu sér nýjungar og skipulögðu framtíðina.

Skipulag og undirbúningur námskeiðsins var í höndum starsfmanna á æskulýðssviði KFUM og KFUK, þeirra Jóns Ómars Gunnarssonar, Halldórs Elíasar Guðmundssonar, Hjördísar Rósar Jónsdóttur og Jóhanns Þorsteinssonar.