Síðasta mánudagskvöld, 21.nóvember, komu tveir sjálfboðaliðar til landsins til að starfa fyrir KFUM og KFUK á Íslandi.
Sjálfboðaliðarnir eru stúlkur á þrítugsaldri og heita Lena og Ewa. Ætlunin er að þær dvelji og starfi hér á landi í eitt ár

Lena er frá Kiev í Úkraínu og hefur verið í starfi KFUM þar í landi í nokkur ár. Hún hefur menntun í alþjóðlegum viðskipta – og hagfræðum og hefur m.a. tekið þátt í starfi Ten Sing í Úkraínu, barnastarfi KFUM, átaki gegn alnæmi og fleiru. Meðal áhugamála hennar eru íþróttir, bókalestur, hljóðfæraleikur (píanó og gítar) og fleira.

Ewa er frá Póllandi. Hún hefur menntun í hugvísindum (heimspeki og bókmenntum) og hefur unnið að verkefni sem miðar að lausnum og meðferð við málstoli (aphasia). Einnig hefur hún unnið sem sjálfboðaliði í Varsjá að verkefni sem nefnist „I speak singing!“ og miðar að örvun málþroska barna. Áhugamál hennar eru ljósmyndun, heimspeki, gyðingleg menning, samræður gyðinga og kristinna, taugasálfræði og fleira.

KFUM og KFUK á Íslandi fær styrk frá Evrópu unga fólksins (www.euf.is) til þess að taka á móti Lenu og Ewu. Þær munu starfa hvern virkan dag á Vinagarði, leikskóla KFUM og KFUK, og einnig í Þjónustumiðstöðinni að Holtavegi og taka þátt í ýmsum greinum starfs félagsins á komandi mánuðum.
Það er mikið gleðiefni fyrir KFUM og KFUK á Íslandi að fá Lenu og Ewu til starfa. Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar hlakkar til samvinnunnar við þær.