Senn líður að basar KFUK, sem verður haldinn næsta laugardag, 26.nóvember í félagshúsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í Reykjavík kl.14. Basarinn hefur verið árlegur viðburður í starfi félagsins í 101 ár.

Undirbúningur basarsins stendur nú sem hæst. Margar KFUK-konur og aðstoðarfólk þeirra vinna að því að gera hann sem glæsilegastan með vönduðu handverki, s.s. fallegu jólaskrauti, ullarvörum, dúkum, fatnaði og leikföngum og einnig gómsætum heimabakstri af ýmsum gerðum.
Þetta er í 102. sinn sem basarinn er haldinn. Hann er mikilvæg fjáröflun fyrir starf KFUM og KFUK á Íslandi, en allur ágóði af honum rennur til starfsemi félagsins.

Basarinn er vel kunnur fyrir fallegt og vandað handverk KFUK-kvenna, og ýmislegt ljúffengt góðgæti, s.s. jólasmákökur, bollur og tertur sem þær hafa bakað.
Á basarnum verða einnig til sölu notaðir en vel með farnir smáhlutir og fylgihlutir (slæður, hanskar, töskur, skartgripir o.fl.).

Á basardeginum verður hægt að kaupa nýbakaðar ilmandi vöfflur, kaffi og kakó. Einnig verða skemmtilegir lukkupakkar í boði fyrir yngstu kynslóðina!

Tekið er við gjöfum á basarinn í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í vikunni áður en basarinn er haldinn. Föstudaginn 25. nóvember verður móttaka í húsinu til kl. 21.

KFUK-konur hvetja alla til að styðja við framtakið og láta gott af sér leiða með því að gera eitthvað sem hægt er að selja á basarnum: kökur af öllum gerðum og stærðum eða annað matarkyns.
Einnig er hægt að styðja við basarinn með því að gefa til hans nýja eða notaða (og vel með farna) smáhluti og fylgihluti.
Á samskiptasíðunni Facebook (undir „Basar KFUK“) er hægt að skoða margar myndir af því sem hefur verið á boðstólnum á basar KFUK síðustu ár.

Tilvalið er að eiga skemmtilega og jólalega stund á basarnum rétt áður en aðventan gengur í garð, gera góð kaup á fallegum vörum fyrir jólin og styrkja starfsemi KFUM og KFUK.

Allir eru hjartanlega velkomnir.