Í kvöld mætti hópur ungs fólks og nokkurra eldri í KFUM og KFUK húsið við Holtaveg til að ganga endanlega frá gámnum þar sem jólaskókössum hefur verið komið fyrir. Þau luku við að fylla gáminn, nánast troðfylla hann, loka honum og læsa. Á morgun fer hann í sitt langa ferðalag austur til Úkraínu. Lokatala fyrir árið 2011 er 4.175 kassar. Það er mikið gleðiefni, enda er það tæplega 500 kössum meira en fyrir síðustu jól. Hópurinn er þakklátur öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum og ljóst að á jólahátíðinni í Úkraínu í byrjun janúar verða 4.175 brosandi og þakklát andlit, sem hugsa hlýtt til alls þess fjölda íslendinga sem tók þátt í verkefninu.
Kærar þakkir enn og aftur fyrir að taka þátt og svo mun verkefnið að sjálfsögðu verða í boði aftur næsta haust.