Dagurinn í dag, þriðjudagurinn 8. nóvember hefur verið ákvarðaður sem Baráttudagur gegn einelti á Íslandi.
Þetta átak er gert að frumkvæði fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis í kjölfarið á útgáfu Greinargerðar um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sem kom út í júní 2010.
Mörg félagasamtök, þar á meðal KFUM og KFUK á Íslandi, taka þátt í átakinu.
Ákveðið hefur verið að setja fram þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti, sem ætlunin er að fá ráðherra, fulltrúa félagasamtaka, borgarstjóra, og sem flesta landsmenn til að undirrita.
Sáttmálinn hljóðar svo:
Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og allra hópa sem eiga sér hvorki málsvara né sterka rödd. Við munum öll, hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.
Í dag, 8. nóvember kl.12:15 fer fram dagskrá í tilefni þessa baráttudags í Höfða, þar sem ráðherrar flytja stutt ávörp, borgarstjóri, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúar félaga og samtaka undirrita sáttmálann. Unglingar frá Hinu Húsinu afhenda gestum armbönd með yfirlýsingu gegn einelti. Loks mun Katrín Jakobsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra opna heimasíðu verkefnisins http://gegneinelti.is/ , þar sem finna má þjóðarsáttmálann, og undirrita hanns. Í lok athafnarinnar verða skemmtiatriði og veitingar.
Það er gleðiefni fyrir KFUM og KFUK á Íslandi að vera þátttakendur í þessari þörfu og mikilvægu baráttu gegn einelti.