Það voru ánægðir krakkar sem snéru heim af móti sem haldið var í Ólafsfirði dagana 5.-6. nóvember s.l. Mótið var samstarfsverkefni yngri deilda KFUM og KFUK á Norðurlandi og ÆSKEY, Æskulýðssambands kirkjunnar í Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmi. Alls tóku um 60 börn þátt í mótinu og kom mikill meirihluti þeirra úr deildum KFUM og KFUK enda starfið gengið vel í vetur, bæði á Dalvík og Ólafsfirði þar sem það er unnið í samstarfi við sóknarkirkjurnar og á Akureyri þar sem deildirnar eru tvær og fundir haldnir í félagsheimilinu okkar í Sunnuhlíð.
Dagskráin var þéttskipuð og fengu krakkarnir tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum leikjum, fótboltamóti og sundferð að ógleymdri kvöldvökunni þar sem Pétur Ragnhildarson og Jóhann Þorsteinsson fóru á kostum með sérvalin sumarbúðaleikrit. Hápunktur helgarinnar var svo undirbúningur og framkvæmd á fjölskylduguðsþjónustu sem fram fór í Ólafsfjarðarkirkju á sunnudeginum og var öllum opin. Krakkarnir skipuðu sjálf kórinn, voru messuþjónar, fluttu hugvekjuna í formi leikþátts og lásu svo upp bænir sem þau sjálf höfðu samið undir leiðsögn sr. Guðmundar Guðmundssonar, héraðsprests. Að guðsþjónustu lokinni var svo boðið uppá smurt brauð og Svala í safnaðarheimilinu og að því loknu var haldið heim á leið.
Rétt er að færa þakkir öllum þeim sjálfboðaliðum og starfsmönnum kirkjunnar og KFUM og KFUK sem gerðu þessa helgi mögulega. Einnig viljum við þakka Ólafsfirðingum fyrir góðar mótttökur og aðbúnað.
Að lokum má benda á að hér á vefnum má finna nokkrar myndir sem teknar voru á mótinu.