Jól í skókassa – Ferðasaga frá dreifingu í Úkraínu – Janúar 2011
Það var löng ferðin til Úkraínu í ár. Við lögðum af stað eldsnemma um morguninn þann 2. janúar og 21 klst. seinna vorum við komin á áfangastað. Hópurinn flaug í tvennu lagi. Ég og Björgvin Þórðarson flugum í gegnum Stokkhólm á meðan Páll Ágúst Ólafsson og Karen Lind Ólafsdóttir millilentu í Kaupmannahöfn. Við hittumst á flugvellinum í Kiev. Þetta var fimmta ferðin mín til Úkraínu og í hvert einasta skipti sem ég hef komið þangað hef ég skynjað einhverja breytingu til batnaðar. Í þetta skiptið þurftum við t.d. ekki að fylla út fjölmarga pappíra til að komast inn í landið eða taka korters yfirheyrslu hjá fúlum tollverði um tilgang ferðar okkar o.fl. líkt og áður. Bara sýna vegabréfið. Ekkert spurt. Þetta var auðveldara en að fara inn í Bandaríkin.<

Á flugvellinum í Kiev beið Krystina eftir okkur en hún er dóttir föður Evheniy, tengiliðar okkar í Úkraínu. Krystina er frábær stelpa sem kom til Íslands og vann sem sjálfboðaliði í Háteigskirkju í eitt ár. Það voru fagnaðarfundir þegar við hittum hana. Fyrir utan flugvöllinn biðu okkar síðan tveir forláta Skoda Samara kaggar sem keyrðu okkur út á lestarstöð þaðan sem við tókum lestina til Snamenka. Það er ákveðin upplifun að fara í bíltúr í Úkraínu.

Fyrir utan bílana sem rúmuðu ekki tvær meðal stórar töskur í skottinu, voru engin bílbelti og Krystina hélt á nokkurra mánaða gömlu barni sínu í fanginu. Mér hefur oft fundist margir keyra furðulega í Úkraínu og það er kannski ekki skrýtið enda sagði Krystina okkur það á leiðinni að það væri ekkert mál að kaupa sér ökuskírteini í Úkraínu. Það kosti á bilinu þrjú til fjögurhundruð dollara og væri vinsælt hjá ríkum strákum í Kiev að kaupa svoleiðis handa kærustunum sínum. Við komum til Snamenka klukkan þrjú um nóttina. Þangað sótti faðir Evheniy okkur og við keyrðum til Subotcy þar sem við áttum eftir að gista í prestbústað föðurins næstu fjórar nætur. Við fórum beint að sofa þegar við komum til Subotcy enda stíf dagskrá framundan.

Við vöknuðum klukkan tíu þann 3. janúar og fórum rakleiðis í dýrindis morgunverð með allri fjölskyldunni. Í morgunmatnum sagði faðir Evheniy okkur frá nýjum leikvelli sem hafði verið byggður í hverfinu. Hann var rosalega ánægður með leikvöllinn og sagði að sig dreymdi um að gera líka leikvöll fyrir eldri börn en nýi leikvöllurinn var hannaður með yngstu börnin í huga. Hann sagði þetta skipta miklu máli því það kæmi í veg fyrir að börnin lékju sér á götunni þar sem fullir ökumenn væru mikið vandamál. Klukkan tólf útdeildum við síðan fyrstu skókössunum í ferðinni. Þá hittum við veik og munaðarlaus börn frá Subotcy í kirkjunni hans Evheniy. Í Subotcy búa 3.2000 manns en þarna hittum við 11 munaðarlaus börn og 17 veik börn; heyrnarlaus, blind, með Downs-heilkenni o.fl. Eftir að hafa hitt krakkana og spjallað aðeins við Ellu, konu sem vinnur við að hjálpa þessu börnum, héldum við af stað í rútunni okkar, fullri af skókössum.

Við byrjuðum á því að heimsækja þrjú heimili í Subotcy. Ég hafði heimsótt ótal munaðarleysingjaheimili, spítala og m.a.s. fangelsi en aldrei áður hafði ég komið heim til venjulegs fólks í Subotcy og það er skemmst frá því að segja að ég fékk vægt sjokk. Fyrst heimsóttum við atvinnulausan, einstæðan föður með tvö börn, eina stelpu á fyrsta aldursári og strák sem hefur líklegast verið svona þriggja til fjögurra ára. Aðstæðurnar á þessu heimili vöru hreint út sagt ömurlegar, lyktin hræðileg og mikill kuldi.

Næst heimsóttum við sígaunafjölskyldu sem samanstóð af 5 börnum og 6 fullorðnum. Það var þröngt á þingi á heimilinu og t.a.m. sváfu allir í einu 20 fm. herbergi. En gleðin þarna var slík að maður gat ekki annað en að glaðst með. Allir svo brosmildir og kátir. Fjörið var heldur ekkert lítið þegar við gáfum börnunum kassana sína og þakklætið mikið.

Á þriðja heimilinu sem við heimsóttum í Subotcy bjó einstæð, 25 ára móðir með rúmlega tveggja ára þríbura. Evheniy sagði okkur að pabbinn væri farinn, við skildum ekki alveg hvað hann sagði en mér heyrðist að pabbinn hafi verið „sent away“ eftir að „woman in hospital“ og „children with bruses“. Þetta hljómaði alla vega ekki vel. Í húsinu var alveg svakalegur raki og miklar skemmdir út af honum og það var líka svakalega heitt. Samt áttum við að flýta okkur eins og við gátum inn um hurðina til að hægt væri að loka aftur. Mamman var ótrúlega jákvæð þrátt fyrir ömurlega aðstæður. Hún sagði okkur að hún fengi 130 Evrur á mánuði frá ríkinu. Það dygði fyrir mat og hita en ekki til að kaupa föt eða bleyjur.

Eftir þetta heimsóttum við munaðarleysingjaheimili í Snamenka. Þar biðu okkar 30 ótrúlega falleg og brosmild börn í sínu fínasta pússi. Á heimilinu eru börn 6 ára og yngri sem öll eiga það sameiginlegt að vera á einhvern hátt veik eða fötluð. Þarna var þroskaþjálfi sem vinnur með börnunum og öllum virtist líða vel og það var góður andi á heimilinu. Það er þó ýmislegt sem vantar. Þarna er t.d. lítil stelpa sem vantar nauðsynlega blóðsykurmæli sem ekki eru til peningar fyrir og önnur sem vantar sérsmíðaðar spelkur. Þetta var fjörugasta heimsókn ferðarinnar og ekkert smá gaman að leika við börnin og fá að fylgjast með þeim gúffa í sig nammið í skókössunum og klæða sig í nýju fötin sín.

Eftir þetta var haldið heim. Á leiðinni stoppuðum við í búð til að kaupa í matinn. Tveir ungir strákar voru að betla fyrir utan búðina og Evheniy bað þá um að koma til sín, spjallaði aðeins við þá og gaf þeim síðan sinn hvorn kassann. Strákarnir grétu bókstaflega af gleði.

Við fórum í rúmið klukkan hálf tíu þetta kvöld, dauðþreytt eftir langan en viðburðaríkan dag.

Næsta dag vöknuðum við eldsnemma. Við byrjuðum á því að bruna í vörugeymslu þar sem faðir Evheniy geymdi alla skókassana og fylla rútuna okkar af kössum. Fyrsta stopp þennan daginn var spítali í Kirovohrad. Ég hafði aldrei komið þangað áður og verð að segja eins og er að þetta var frekar ömurlegur staður. Húsnæðið var nöturlegt, lyktin slæm og andrúmsloftið allt einhvern veginn óþægilegt. Fólkið á sjúkrahúsinu sýndi okkur pínulítil börn sem tekin höfðu verið af mæðrum sínum sem annað hvort voru alkahólistar eða dópistar. Það minnsta var 900 grömm. Á spítalanum er reynt að halda lífi í þessum börnum og ef að þau braggast eru þau send á munaðarleysingjaheimili. Það er jú víst þannig að langstærstur hluti þeirra sirka 100.000 barna sem eru munaðarlaus í Úkraínu eru félagslegir munaðarleysingjar, þ.e. eiga a.m.k. eitt foreldri á lífi. Síðan röltum við um spítalann, ræddum við starfsfólk og sjúklinga og gáfum nokkrum börnum gjafir. Aðstæðurnar voru ekki upp á marga fiska og maður dauðvorkenndi, sérstaklega veiku börnunum, að þurfa að dvelja á þessum stað.

Eftir heimsóknina á spítalann tók við stutt stopp á munaðarleysingjaheimilinu Nadya. Þetta var fimmta heimsóknin mín á Nadya og það er alltaf jafn gaman að koma þangað og sérstaklega er gaman að sjá þær miklu jákvæðu breytingar sem orðið hafa á aðbúnaði á heimilinu síðan ég kom þangað fyrst. Á Nadya tóku á móti okkur 20 brosmild og falleg börn sem öll voru himinlifandi að fá jólapakka.

Því næst héldum við á bókasafn í Kirovohrad þar sem við hittum 40-50 veik börn og mæður þeirra. Þau var hluti af samtökunum „Heart of the Mother“ eða „Hjarta móðurinnar“ sem eru samtök mæðra með langveik börn í Kirovohrad en alls eru um 150 börn í samtökunum. Það var ótrúlega gaman að hitta þennan hóp og börnin voru þvílíkt glöð að fá skókassa. Það var mikið sungið og við fengum helling af gjöfum til baka frá börnunum, alls konar fínerí sem þau höfðu föndrað. Það var greinilegt á fundinum að þetta voru flott samtök og mæðurnar virkuðu á mig sem mikil kjarnakvendi.

Frá bókasafninu héldum við á munaðarleysingjaheimili í Kirovohrad. Ég hafði aldrei áður komið á þetta heimili og við fyrstu sýn virkaði það svakalega flott. Allar aðstæður voru betri en á öðrum heimilum sem ég hafði heimsótt. Þarna bjuggu 15 unglingar og höfðu sumir sitt eigið herbergi á meðan aðrir voru tveir og tveir saman í herbergi. Á venjulegu munaðarleysingjaheimili í Úkraínu eru venjulega um 10-20 börn saman í herbergi. Þarna var flott sjónvarpsherbergi, borðtennisborð, leikfimissalur og ýmislegt fleira. Allt var líka miklu hreinna og flottara en á venjulegum munaðarleysingjaheimilum í Úkraínu. Krakkarnir versluðu sjálfir í matinn og elduðu ofan í sig en þó var einhver kona á heimilinu til að leiðbeina þeim þegar á þurfti. Þetta leit allt saman rosalega vel út. Við gáfum krökkunum pakka og þau voru himinlifandi. Þegar við fórum frá heimilinu spurðum við föður Evheniy hvers vegna aðstæðurnar væru svona miklu betri þarna en annars staðar. Hann sagði að heimilið væri ekki rekið af ríkinu heldur af einkaaðilum, fólki í Bandaríkjunum sem greiddi allan kostnað. Hann sagðist ánægður hvað allt væri fínt þarna og þótti það mjög sniðugt að unglingarnir keyptu sjálf í matinn, elduðu o.s.frv. Það byggi þau betur undir lífið eftir að þau yrðu 18 ára og þyrftu að sjá um sig sjálf. Hann hafði hins vegar miklar efasemdir varðandi heimilið. Honum fannst óþægilegt að einkaaðilar væru að halda heimilinu uppi og spurði sjálfan sig hvað myndi gerast ef þeir myndu einn góðan veðurdag hætta að borga. Þá sagði hann að forstöðumaður heimilisins hafi á síðasta ári farið í ferðalag til Las Vegas og tekið eina stúlku af heimilinu með sér. Hann sagðist gruna að eitthvað misjafnt væri í gangi þarna og ýjaði sterklega að því við okkur að hann ætti við mansal. Það var ömurlegt að heyra þetta og eftir þessar nýju upplýsingar frá föðurnum vorkenndi ég þessum krökkum jafnvel meira en öllum hinum börnunum á verr búnu munaðarleysingjaheimilunum.

Eftir þessa heimsókn héldum við heim á leið en stoppuðum á leiðinni í stórmarkaði þar sem við keyptum mikið magn af hreinlætisvörum, ljósaperum, klósettpappír o.fl. sem við áttum eftir að gefa á góðan stað næsta dag.

Næsti dagur hófst eins og sá á undan. Morgunmatur og svo rakleitt í vörugeymsluna að byrgja okkur upp af skókössum. Fyrsti áfangastaður dagsins var fangelsið í Kirovohrad þar sem faðir Evheniy starfar sem fangelsisprestur. Fangelsið í Kirovohrad er fangelsi fyrir síbrotamenn og þá sem hafa framið alvarlega glæpi. Öryggisgæslan þar er ofboðslega ströng og verðirnir allir þungvopnaðir. Fangelsið sjálft er vígalegra en þau verstu sem maður hefur séð í bíómyndum. Þykkir steinsteyptir veggir yst og svo þrjá vírgirðingar hver á eftir annarri með nokkurra metra millibili. Á milli girðinganna eru gjammandi varðhundar og auðvitað tonn af gaddavír ofan á öllu saman. Þegar ég heimsótti þetta fangelsi í fyrsta skipti spurði ég verðina hvort einhver hefði einhvern tímann strokið úr fangelsinu. Þeir grenjuðu nánast úr hlátri. Eins og áður fórum við í fangelsiskapelluna sem er staðsett í miðju fangelsinu. Fangarnir hafa séð algerlega um að smíða og mála kapelluna og hún er örugglega einn sá allra fallegasti staður sem ég hef komið á í Úkraínu, staðsett í miðjum þeim ömurlegasta stað sem ég hef komið á. Eftir stutta athöfn í kapellunni bauð faðir Evheniy mér og Björgvini að kíkja með sér í svefnálmu fanganna. Það er varla hægt að lýsa því hversu ógeðslegar aðstæður fanganna voru en þeim er kannski best líst með orðum föður Evheniy: „Gulag style“. Við fórum inn í stórt herbergi þar sem var gríðarlegur fjöldi koja og nokkur rúm. Ég taldi kojurnar og rúmin og reiknaðist til að þarna væru 150 svefnpláss. Herbergið sjálft var á að giska 100 fermetrar enda þurftu fangarnir að skáskjóta sér til að komast á milli kojanna. Lyktinni er erfiðara að lýsa en hún var einhvers konar blanda af pissi, berklum, myglu og öðru í þeim dúr. Fangarnir litu allir út fyrir að þjást af næringarskorti og andrúmsloftið allt var skelfilegt þarna inni. Ég var þarna inni í 5 mínútur en mun aldrei gleyma þessu. Ég hugsaði líka til fanganna í Úkraínu þegar ég seinna í janúar las frétt á vísi.is um slæman aðbúnað fanga á Íslandi undir fyrirsögninni  „Staðan aldrei verri – 165 fangar í 150 plássum“. Það eru svipað margir og voru í þessu eina herbergi í Kirovohrad. Við fengum einnig að skoða sjúkraálmuna og ekki var hún upp á marga fiska. Þar hittum við einn fanga sem við gátum rætt örstutt við. Hann fékk 14 ára dóm fyrir að stela bíl eða bílum, var búinn að vera þarna í tíu ár og átti fjögur eftir. Loks fórum við aftur í kapelluna og afhentum þar nokkrum föngum skókassa sem sérstaklega voru útbúnir með þá í huga. Kassarnir voru ekki nógu margir fyrir alla fangana en faðir Evheniy sagði að þeim yrði skipt upp eftir þörfum. Ef einhver ætti t.d. von á heimsókn frá barninu sínu þá fengi hann súkkulaðistykki sem hann gæti gefið því. Okkur leist vel á þessa hugmynd og treystum föður Evheniy fullkomlega til að framkvæma þetta á sanngjarnan hátt. Fangarnir voru ótrúlega þakklátir fyrir gjafirnar og gáfu okkur í staðinn mjög fallegar myndir sem þeir höfðu málað.

Eftir heimsóknina í fangelsið héldum við á barnageðspítalann í Novy. Þennan spítala hef ég heimsótt í öllum ferðum mínum til Úkraínu og þykir alveg ótrúlega vænt um hann. Börnin þarna máttu ekki fá skókassa en við gátum keypt handa þeim svolítið nammi og svo gáfum við spítalanum hreinlætisvörurnar, ljósaperurnar, klósettpappírinn og fleira sem við höfðum keypt daginn áður. Fyrir nokkrum árum söfnuðum við pening, í samstarfi við notendur barnaland.is, og keyptum tvær þvottavélar fyrir barnageðspítalann en fyrir þann tíma var allur þvottur á spítalanum þveginn í höndunum. Starfsfólkið á spítalanum sýndi okkur þvottavélarnar og það mætti halda að þær væru bónaðar a.m.k. einu sinni í viku. Þau þökkuðu okkur enn og aftur fyrir vélarnar og sögðust ekki geta lýst því hversu miklu þær hefðu breytt fyrir sig.

Við enduðum síðan daginn á því að fara aftur á bókasafnið í Kirovohrad þar sem við hittum fleiri börn og foreldra úr samtökunum „The Heart of the Mother“. Eins og áður var mikið fjör á bókasafninu og það var gaman að geta bætt þessum samtökum í hóp þeirra sem fá skókassa frá Íslandi.

Um kvöldið borðuðum við saman heima hjá föður Evheniy og ræddum um verkefnið, ferðina og framhaldið langt fram á kvöld. Það var ekki mikið sofið þessa nóttina því við lögðum af stað heim til Íslands rúmlega eitt um nóttina, þreytt en hrikalega sátt eftir lærdómsríka og ánægjulega ferð.

Reynir Berg Þorvaldsson