Við erum stödd í 43. viku ársins og af því tilefni tekur KFUM og KFUK þátt í vímuvarnarvikunni. Vika 43 er vettvangur félagasamtaka sem hafa forvarnir að markmiði starfs síns eða vilja leggja vímuvörnum lið. KFUM og KFUK hefur frá upphafi lagt áherslu á forvarnir í starfi sínum, enda félagið ávallt lagt áherslu á að byggja upp heilsteypta einstaklinga, sem reisa líf sitt á bjargi. Forvarnarstefnu félagsins má nálgast hér.
Að þessu sinni er í viku 43 athygli beint að rétti barna og ungmenna til vímulaus lífs og verndun þeirra gegn neikvæðum áhrifum neyslu áfengis og annarra vímuefna, eins og mælst er til í yfirlýsingu aðildarríkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2001 og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þennan rétt barna þarf að verja.
Undirritun yfirlýsingar Viku 43 fer fram í húsi KFUM og KFUK föstudaginn 28. október nk. kl. 15.00. Þangað er fulltrúum félagasamtaka í verkefninu Vika 43 boðið að koma og undirrita yfirlýsingu Viku 43 en að auki munu skrifa nafn sitt á hana við þetta tækifæri velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson og umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir.

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Viku 43 www.vvv.is.