9.flokkur 2011
5.dagur
Að venju vakið kl.9:00. Hefðbundinn morgunverður hálftíma síðar.
Morgunstund eftir það og rifjuðum við upp söguna af miskunnsama Samverjanum þar sem Jesú notar dæmisögu til þess að útskýra náungakærleik. Margar stelpur bentu á góð dæmi um náungakærleik. Einnig teiknuðu stelpurnar myndir í tengslum við umræðuefnið.
Áfram íþróttir, brennó, vinabönd og frjáls leikur.
Hádegismatur kl.12:30. Hamborgarar með grænmeti og vel tekið til matar síns.
Í útiveru í dag var farið í ævintýragöngu um skóginn þar sem birtust hinar ýmsu ævintýraverur. Þyrnirós svaf vært í skóginum og hjálpuðu stelpurnar prinsinum hugprúða að vekja hana. Einnig sást til vinalegrar geimveru, Bóbó dreka og sjálfur Lilli klifurmús reyndi árangurslaust að svæfa stelpurnar með vögguvísunni sinni. Rauðhetta var komin langt út fyrir stíginn og aðstoðuðu stelpurnar hana til þess að komast á rétta slóð til ömmu gömlu. Ekki voru bara góðar ævintýraverur á sveimi heldur læddist norn ein ógurleg fram úr fylgsni sínu og var kerlingargarmurinn að leita að Hans og Grétu. Henni leist ekkert á horaðar og ræfilslegar Hlíðarmeyjar og heimtaði að þeim yrði tafarlaust gefið að éta. Stelpunum tókst að afvegaleiða nornarræfilinn og er hún víst enn að leita að Hans og Grétu í skóginum.
Þegar allar ævintýraverurnar voru loks búnar að finna ævintýrin sín héldu stelpurnar heim á leið og gæddu sér á nýbökuðum kökum og brauði frá bakaranum í Vindáshlíð.
Eftir kaffið hófst undirbúningur kvöldvöku hjá þeim tveimur herbergjum sem eftir voru að sjá um hana. Einnig var farið í brennó, fótbolta, húllakeppni og fleira.
Kvöldmatur kl.18:30. Fiskibollur, salat og kartöflur.
Kvöldvaka í umsjá tveggja herbergja. Bráðfyndin leikrit og ekki síður fyndnir leikir sem stelpurnar eru ólmar í að fá að bjóða sig fram í sem sjálfboðaliða.
Kvöldkaffi og róleg stund þar sem sögð var falleg saga um þakklæti.
Ró um kl.22:45
Bestu kveðjur
Halla Gunnarsdóttir forstöðukona
Ps. Minni á myndir úr flokknum sem sjá má á heimasíðunni undir stikunni : Myndir